Saturday, October 08, 2005
Vefspjall Sollu
Heil og sæl
Nú ætlar nýbökuð amma að færa sig upp á skaftið og reyna að "blogga" svolítið, en þó kannski fyrst og fremst að setja inn myndir og helstu fréttir að austan, þegar tími gefst, aðallega fyrir nánustu ættingja og vini sem eru fjarri þessum ágæta stað Seyðisfirði. Það gerist nefnilega ýmislegt hér rétt eins og annars staðar og alveg jafn fréttnæmt í sjálfu sér, fer bara eftir áhugasviði hvers og eins, ekki satt ? Ég er semsagt í startholunum, að fikra mig áfram hvernig á að koma þessari síðu á laggirnar, vona að það takist þolanlega.
Í dag er fjölskyldudagur á Seyðisfirði, nefnist HAUSTROÐI og ýmislegt til gamans gert eins og sjá má á heimasíðu bæjarins, sfk.is. Söfn bæjarins eru opin, markaður er starfandi í gömlu Angró og rútuferð er á döfinni upp á Bjólf til að skoða nýja snjóflóðavarnargarðinn þar uppi. Það er líka þetta fína veður til þess, nánast logn og bjart, haustlitirnir skarta sínu fegursta og hvítir fjallatoppar umkringja bæinn. Ætli ég fari ekki að drífa mig af stað með myndavélina (auðvitað) og taka þátt í því sem í boði er.
Hafið það öll sem best, hvar sem þið eruð.
Við heyrumst og sjáumst fyrr eða síðar.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment