Sunday, January 09, 2011

Óveður og ófærð á nýju ári ....!







Það verður að segjast eins og er að veðrið og ófærðin á þessu nýja ári hefur verið með eindæmum leiðinlegt. Eini dagurinn sem var sæmilega fært bæði fyrir bíla og flugvélar var 5. jan. en þá fóru einmitt öll börnin okkar, tengdadóttir og barnabörnin til síns heima. Strákarnir og Hildur lögðu af stað fyrir hádegi og óku suðurleiðina sem var auð nánast frá Fáskrúðsfjarðar- göngunum og suður. En ég keyrði Jóhönnu og börnin í flug síðdegis og rétt komst klakklaust til baka, því ekki sá á milli stika í kófinu, þó ekki væri mikil ófærð, þá var blindan stundum svo mikil að maður varð að stoppa og bíða. Og ófærðin hér í bænum er líka leiðinleg og tilgangslaust að reyna að moka, því það snjóar jafnóðum yfir allt. Það kom líka rigning og asahláka ofan í snjóinn sem gerði auðvitað illt verra, því það stóð svo stutt að það gerði ekkert gagn.
En ekki hef ég þurft að kvarta yfir mjólkurskorti eða vöruleysi, því ég er HOME ALONE og þarf ekki mikið, svo ófærðin hefur ekki áhrif á mig þess vegna, eins og suma aðra.
Í gær kvöddum við líka aldursforseta bæjarins hana Fíu okkar sem var á 98. aldursári og merkilegt nokk, ég komst á bílnum til kirkju, því búið var að skafa helstu götur, en veit ekki hvort ráðlegt er að reyna að hreyfa hann í dag, því svo hefur bætt á snjóinn í nótt og ekkert mokað hér í okkar götu ennþá, hvað sem verður ???
Ég vorkenni öllum fuglunum sem þurfa að hýrast úti þessa löngu, köldu og dimmu daga og hafa lítið eða ekkert æti, svo ég ber út daglega fóður handa þeim, mest korn og brauð en einnig þá fitu sem fellur til á heimilinu og epli fyrir þá fáu þresti sem eiga leið um, en einn svartþröstur dvaldi hjá okkur hálfan des. og gráþröstur hefur séðst hér eftir áramótin, en lítið borið á öðrum flækingum....

1 comment:

Asdis Sig. said...

Yndislegar myndir bæði hér og í færslunni á undan. Gott að allt gekk vel og börnin komust til síns heima. Er nokkuð annað að gera en að vinna og kúra með góða bók? hafðu það sem allra best í skammdeginu, hér er auð jörð og ég fylgist með fuglunum út um gluggana hjá mér, þeir gleðja mig alltaf blessaðir. Kær kveðja Ásdís