Sunday, October 23, 2011
Fyrsti vetrardagur fyrir norðan !
Við Rúnar skruppum norður til Húsavíkur á föstudagskvöldið eftir vinnu hjá mér. Það var auður vegur alla leiðina og gott færi, þó jörð væri víða orðin hvít á fjöllunum.
Fyrsti vetrardagur, laugardagurinn 22. okt. heilsaði með frosti, svo ég þurfti að skafa bílrúðurnar áður en ég skrapp í heimsókn til mömmu upp í Hvamm, en veðrið var annars stillt og bjart og snjólaust, þó sjór væri reyndar nokkuð úfinn. Vonandi verður veturinn eitthvað líkur þessum fyrsta degi, þ.e. frekar stillt veður og snjólaust. Í síðustu viku dreymdi mig nokkrar rjúpur og voru þær allar í sumarlitunum, sem fær mig til að trúa því að veturinn framundan verði líklega snjóléttur. Ég brá mér með myndavélina niður að höfn eins og við gerum svo oft og tók nokkrar myndir, m.a. af brosmilda turninum sem aldrei setur upp fýlusvip sama hvernig viðrar :)Ég er hinsvegar enn að velta vöngum yfir nafninu GARÐARSHÓLMUR sem ég hélt að ætti að vera GarðarsHÓLMI, en kannski getur einhver útskýrt þessa skrítnu beygingu fyrir mér ? Við buðum Gulla frænda í kvöldmat og áttum síðan yndæla kvöldstund hjá Önnu Mæju og Sigga. Í morgun (sunnudag) var komin slyddurigning og Húsavíkurfjall orðið gráhvítt. Við drifum okkur því af stað austur eftir hádegið og ókum í krapasnjó og slabbi alla leið frá Hólasandi og austur á Jökuldal. Stundum var svo alhvítt að ekki sá á dökkan díl og eina sem hafði annan lit, voru gulu vegstikurnar sem eru ómetanlegar á vegum landsins.
Saturday, October 15, 2011
Heimferðin !
Á heimleiðinni þurftum við aftur að millilenda í Frankfurt og gista eina nótt, áður en við komumst í flugvél Icelandair, Surtsey, til að komast aftur heim til Íslands. Við borðuðum öll kvöldin í Frankfurt á sama veitingahúsinu og gistum aftur á sama hóteli, við hliðina á háværu lestunum. Við snæddum morgunverð á hótelinu þennan síðasta morgunn, en síðan tók við bið eftir rútunni og lengri bið á flugvellinum, því seinkunn varð á komu vélarinnar. Vigdís Finnbogad. fv. forseti var samferða okkur á heimleiðinni, því hún var að koma af bókamessunni sem var ný hafin í borginni einmitt þessa daga, þar sem Ísland var í heiðurssæti.
Þessi seinkunn varð til þess að við lentum í Keflavík á síðustu stundu til að geta komist með rútunni á flugvöllinn í Reykjavík til að ná fluginu austur sem við áttum pantað. Það tókst og þeir áhafnarmeðlimir sem fara áttu út á sjó um miðnættið, komust leiðar sinnar og ég sömuleiðis heim um leið, en Rúnar varð eftir fyrir sunnan og keyrði austur á bíl dóttur okkar sem verður hér til sölu á næstunni....
Kveðjuveislan
Gríska stafrófið er eiginlega svolítið svipað og það rússneska. Nokkrir stafir eru þeir sömu í báðum tilvikum eins og V sem er á hvolfi en táknar L og D sem er eins og þríhyrningur eða pýramídi. Þó ég hafi reynt að skilja þetta stafróf, þá vafðist það mikið fyrir mér, en Rúnar hinsvegar kann öll sér-grísku táknin, því þau eru líka notuð í stærðfræði, allt frá Alfa, beta, delta, gamma og til síðasta stafsins Omega. Hann vissi t.d. að Sigma er táknið fyrir S sem vantar í þeirra stafróf.
En svo ég víki að öðru, þá var síðasta kvöldið í Grikklandi helgað kveðjustund, þar sem einn skipverja er hættur störfum fyrir aldurs sakir, þ.e. Jón Grétar Vigfússon, sem áratugum saman hefur verið á sjó. Við snæddum fínan kvöldverð saman og sögur voru sagðar af ýmsum atvikum frá fyrri árum. Að lokum söng hún Sigga einsöng með geysilega sterkri röddu og við nokkrar eiginkonur skipverja sungum undir með henni. Þetta var vel lukkað kvöld og allir skemmtu sér hóflega og starfsfólkið virtist líka hafa gaman af að taka þátt í fjörinu með okkur :)
Uppskerutími ávaxta....!
Í svona suðlægu landi er auðvelt að rækta alls konar ávexti og grænmeti. Næstum því í hverjum garði mátti sjá einhver ávaxtatré eða berjarunna og var ekki laust við að mann langaði að fara að tína mandarínur, sítrónur, lime, vínber, granatepli, tómata, hindber og fleiri berjategundir sem ég þekki ekki fyrir víst. Falleg blómstrandi garðablóm voru enn í blóma, en sum þeirra lifa varla af hér á landi, þó þau séu höfð innan dyra við gott atlæti.
Hér heima erum við að berjast við að rækta hindber og jarðarber með sæmilegum árangri ef vel viðrar, en lítið þýðir að rækta suðrænni plöntur nema í gróðurhúsum, það er mín reynsla að minnsta kosti, því miður....!
Ævintýri á gönguför...!!!
Úr sól og blíðu í rok og rigningu.
Næst síðustu nóttina okkar í Pefkohori fór að hellirigna og því fylgdi rok, þrumur og eldingar sem héldust fram á morgunn. Við tókum deginum rólega, fórum í góðan göngutúr og kíktum í búðir og þegar við gengum út úr einni þeirra, þá biðu 2 stórir hundar fyrir utan og hófu að fylgja okkur þétt eftir, hvert sem við fórum. Þegar við gengum næst inn í verslun, þá ætluðu þeir inn með okkur en voru reknir út af afgreiðslufólkinu. En þegar við snerum út aftur, lágu þeir bara rólegir og biðu okkar og héldu eftirförinni áfram. Nokkrir fleiri hundar slógust í hópinn um stund og þeir tóku upp á því að pissa á vínberjakassa sem staðsettir voru utan dyra við verslun eina í of lítilli hæð til að fá frið fyrir þeim, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Að lokum þegar við gengum heim á hótelið, fylgdi einn hundurinn okkur heim að dyrum. Við fréttum síðan að talsvert væri um útigangshunda og ketti þarna, enda sáust þeir víða en virtust ekki illa haldnir og geltu ekki eða ógnuðu á nokkurn hátt. Þeir nusuðu bara af okkur og nudduðu sér utan í buxurnar okkar eins og kettir gera svo gjarnan.
Fjölbreytt dýralíf...
Eitt af því fyrsta sem maður tók eftir þegar við komum til Grikklands, var fjölbreytt smádýralíf, enda fengu flestir að kenna á flugnabitum, mismikið að vísu. En fleira mátti sjá en flugur, m.a. varð allt morandi í froskum þegar fór að rigna og þá urðu þúsundfætlur líka mjög áberandi. Hinsvegar sáum við bara engisprettur, bænabeiður og bjöllur á meðan sólin skein. Stór fiðrildi voru líka á sveimi, en það er mjög erfitt að ná myndum af þeim, svo ég læt nægja þessar fáu myndir sem hér fylgja með. Það eina sem við kærðum okkur EKKI um að sjá eða mæta var eiturslanga. Sú ósk rættist, enda eru sennilega engar slöngur á ferðinni þegar svo langt er liðið á haustið. En mikið var líka af fuglum, stórum og smáum og t.d. sáum við svöluhreiður á gangveggnum við herbergið okkar. Það er eins og hálf leirskál sem límd er við vegginn.... eins og sjá má á meðfylgjandi mynd...
Thessaloniki höfuðborg Makedóníu
Einn daginn skruppum við í síðdegisferð til gömlu höfuðborgarinnar Þessaloniki. Þar skoðuðum við m.a. það sem ennþá stendur uppi af gömlu borgarmúrunum en þar fór fram myndataka af uppáklæddum brúðhjónum. Við skoðuðum líka eina fallega kirkju, auk fleiri sérstakra staða í miðborginni. Þarna í miðbænum mátti líka sjá glerpýramída sem glóði í bláu ljósi og á honum var lítil hurð sem hægt var að skríða inn um. Örugglega eitthvað sérstakt ???
Enginn tími var fyrir verslun og viðskipti, enda ferðin ekki farin í þeim tilgangi. Önnur ferð var farin síðar til innkaupa, en við kusum að sleppa henni og vera í rólegheitum í Pefkohori, þar sem við reyndar versluðum heilmikið af jólagjöfum og fleiru.
Hópurinn fór líka í stutta kvöldsiglingu um höfnina áður en við snæddum margréttaðan kvöldverð þar sem matsalurinn var fullur af heimamönnum sem voru að skemmta sér, líklega í afmælisveislu eða annað álíka og hljómsveitin spilaði þjóðlega tónlist,sem var svo hávær að á endanum flúðum við öll út og ákváðum að flýta för okkar heim í stað þess að taka þátt í gleðskapnum...
Pefkohori í Grikklandi
Þegar við komum til sjávarbæjarins Pefkohori á suðurhluta Kassandra- skagans sem tilheyrir Makedóníu, nyrsta hluta Grikklands, þá var heiðskýr himin og glaða sól, svo að flestir lögðust í sólbað og nutu blíðunnar næstu 2 daga til viðbótar. Reyndar höfðu þá flestir fengið sér göngutúra um bæinn og sumir höfðu leigt sér reiðhjól eða mótorhjól til að geta skoðað sem mest af nágrenninu. Sjálf leigðum við okkur fjórhjól og fórum ásamt nokkrum öðrum í skoðunarferðir, tvær hringferðir um skagann. Þá sáum við fjölmörg býflugnabú meðfram veginum og komum síðan í sjávarþorp þar sem við hittum fleiri samferðafélaga okkar og fengum okkur smá næringu saman. Við heimkomuna á hótelið síðdegis var orðið býsna svalt, enda farið að hvessa og sá ekki lengur til sólar... En hótelið var mjög glæsilegt og starfsfólk sérstaklega almennilegt og hjálpsamt og margt hægt að segja um það, eins og t.d. að hótelstýran Jóhanna bjó lengi á Íslandi og skilur íslensku, þó hún kysi að ræða við okkur á ensku. En eldri sonur hennar er einmitt við nám á Íslandi um þessar mundir :)
Friday, October 14, 2011
Frankfurt
Þriðjudaginn 4. okt. lögðum við af stað til Frankfurt, 42 manna hópur, þ.e. áhöfn Gullvers og eigendur og makar. Allt gekk samkvæmt áætlun til að byrja með, við gistum þar eina nótt og áttum síðan að halda áfram til Grikklands, en þá var komið verkfall þar, svo við vorum strandaglópar einn dag, áður en við gátum haldið af stað. En þessa 2 daga í borginni notuðum við vel. Veðrið var líka gott og við gátum skoðað okkur um, auk þess sem haustútsölur voru í flestum verslunum og því óvenju hagstætt að kaupa ýmislegt eins og fatnað og skó í H&M og C&A.
Ég ætlaði ekki að versla neitt, en gat svo ekki sleppt því þegar ég rakst á ýmislegt sem ég gat notað sem jólagjafir, auk fatnaðar sem kom sér vel. Hótelið sem við gistum á var staðsett nokkra metra frá járnbrautinni, þar sem gríðarlangar flutningalestir voru á ferð allan sólarhringinn með skröltandi vagna, svo flestir urðu fyrir ónæði á næturnar. Að öðru leyti var allt gott að segja um veru okkar í borginni og það munaði litlu að við gætum kíkt á bókastefnuna, þar sem Íslendingar voru heiðursgestir.
Sunday, October 02, 2011
Frænkuhittingur !
Fyrir nokkrum árum þegar ég var í fjarnámi og þurfti að mæta til Rvk. mánaðarlega, þá fórum við frænkurnar í föðurætt að hittast þegar færi gafst. En þar sem tvær okkar búa úti á landi, þá þurfum við að láta hinar vita þegar við komum í bæinn til að kanna hvort hinar hafi tíma til að hittast t.d. í brunch á einhverju veitingahúsi. Ég hef reynt að koma því svo fyrir að geta eytt tíma með þeim a.m.k. einu sinni á ári. Í þetta sinn vorum við 8 sem gátum mætt og hittumst á Nauthól og nutum þar góðra veitinga og höfðum svo margt að spjalla, að við hefðum þurft a.m.k. að sitja helmingi lengur en við gerðum. Það er því spurning hvenær næsti hittingur verður ?
Haustroði 2011
Laugardaginn 1. okt. var hin árlega skemmtun Haustroði á Seyðisfirði. Þá komu saman allir þeir sem höfðu eitthvað að selja og settu upp markað, með matvæli jafnt sem notuð föt, bækur, DVD myndir og annað sem fólk hefur ekki þörf fyrir. Þarna var fjöldi manns, bæði að selja og skoða og kaupa og nokkuð mikið var um aðkomufólk frá nágranna-sveitarfélögunum sem greinilega kunnu að meta þessa uppákomu. Einnig var samkeppni í gangi um bestu heimatilbúnu sultu haustsins og var það Anna Kristín Jóhannsdóttir sem fékk aðalverðlaunin fyrir blandaða sultu, en einnig fengu verðlaun þær Guðlaug Vigfúsdóttir og Sigríður Þ. Sigurðard. fyrir rabbarbara og krækiberjasultur eða hlaup. Sjálf setti ég inn blandaða sultu en vann ekki verðlaun að þessu sinni, enda búin að fá minn skerf, því ég vann í hittifyrra fyrstu verðlaun fyrir sólberjasultuna mína. Hinsvegar sendi ég inn 2 myndir í ljósmyndakeppnina fyrir okkur Rúnar bæði og myndin sem ég sendi fyrir Rúnar fékk 2 verðlaun (hvíta rós) en Einar Bragi fékk fyrstu verðlaun fyrir sína mynd (flugferð til Rvk). Bæjarbúar kusu bestu myndina og voru það nokkuð margar myndir sem hægt var að velja um.
Að lokum skal þess getið að þennan sama dag fór lítill hópur fólks gangandi upp á Fjarðarheiði til að minna á nauðsyn þess að fá jarðgöng og hafi þau þökk fyrir dugnaðinn og viljann í þessari erfiðu baráttu....
Subscribe to:
Posts (Atom)