Wednesday, August 27, 2008

Á slóðum fjallkonunnar




Allt er þegar þrennt er segir máltækið og ég held það eigi við mig í dag, því ég fór í mína 3ju ferð upp á Fjarðarheiði á slóðir "fjallkonunnar okkar", eins og við gjarnan köllum svæðið þar sem bein og skart landnámskonu fannst fyrir 4 árum.
Í fyrstu ferðinni sumarið 2004 fór ég með hópi af fornleifafræðingum til að safna saman þeim perlum sem hægt var að finna á þessu erfiða svæði. Sú ferð gekk vel og margar perlur fundust, en þreytt var ég þá eftir erfiða göngu niður Vestdalinn.
Ári síðar fór ég í 6 manna hópi sem gekk alla leið frá Skíðaskálanum og til baka. Það var nokkuð strembin ganga, en gekk vel og afrakstur þeirrar ferðar voru 5 perlur sem ég skilaði fljótlega eftir að hafa fengið miklar skammir frá ónefndri konu í Rvk sem má skammast sín fyrir framkomu sína við okkur, því ekki ætluðum við að hirða perlurnar.
Það var svo fyrst í dag sem ég fór mína 3ju ferð þarna uppeftir, en þetta var önnur ferð Rúnars þangað. Í þetta sinn gengum við frá vestari enda Vestdalsvatns, en þangað komumst við á bílnum eftir skelfilega vondum vegslóða og þurftum að stoppa ótal sinnum til að fjarlægja grjót úr slóðanum, svo hægt væri að komast áfram án vandræða.
Á leiðinni á svæðið var ég svo óheppin að renna á blautum steinum hátt uppi í skriðu og detta í urðina. Fyrir vikið er ég öll lemstruð og með snúinn og auman vinstri fót. En ég má samt þakka fyrir að ekki fór ver, því ég gat gengið vandræðalítið alla leið og án stuðnings.
Ekkert fjallkonudjásn fundum við að þessu sinni við fjallkonuklettinn, enda greinilegt að mikið er búið að moka og gramsa á svæðinu þessi 3 ár sem við höfum ekki komið þar. Hvort þar voru á ferð fornleifafræðingar sem nýbúnir eru að skanna svæðið eða ferðafólk veit ég ekki, trúlega hvort tveggja.
Skúli Lórenz miðill var búinn að segja mér fyrir stuttu að ekki væri allt fundið ennþá af því sem fjallkonan hefði haft með sér og vildi drífa mig þangað sem fyrst. Ég var auðvitað að vona að við yrðum svo heppin að reka augun í eitthvað ófundið á svæðinu, en það væri satt að segja kraftaverk innan um allt stórgrýtið sem er þar um kring. Í slíka leit þarf maður annað hvort hundaheppni eða hjálpartæki og nógan tíma, en hvorugt höfðum við.
Ég var svo fegin þegar ég komst heim aftur, að ég ákvað að þetta yrði mín síðasta ferð á þessar slóðir, því svo óspennandi er að komast þangað, sama hvort það er á bíl eða gangandi. Ástæðan er náttúrulega sú, að skrokkurinn á mér er greinilega í frekar slöku formi og liðamótin farin að kvarta í hverri gönguferð, svo ég verð framvegis að halda mig við léttari leiðir ef ég vil ekki hafa verra af....!
Myndirnar sýna Rúnar á göngu eftir æva-gamalli veghleðslu, mig að horfa yfir Vestdalsvatn og stóra steina sem liggja eins og boltar út um allt á slípaðri klöpp rétt eins risar hafi verið þar að leik og skroppið frá...!
Að síðustu vil ég bjóða handboltalandsliðið okkar hjartanlega velkomið heim í dag með silfurverðlaunin frá Ólympíuleikunum í Peking.....
TIL HAMINGJU STRÁKAR !

Tuesday, August 26, 2008

Adam gullmoli 3ja ára



Hæ hæ og hó !
Elsku litli ömmustrákurinn minn hann Adam er orðinn 3ja ára og að þessu sinni missti amma "gamla" af afmælisveislunni en afi "gamli" mætti í hennar stað, í fyrsta sinn sem hann fær tækifæri til að njóta þess, því hann er svo oft úti á sjó þegar eitthvað er um að vera hjá fjölskyldum okkar.
En ég fæ að sjá litla gullmolann eftir nokkra daga, því nú er ég á förum suður, þarf að mæta í skólann að nýju á föstudag. Ég hlakka líka til að hitta skólasysturnar sem allar eru í hressa kantinum. Þeim hefur að vísu fækkað, því miður, en meirihlutinn heldur enn og ætlar að klára þennan síðasta vetur saman. Við stöllur komum til með að sakna samfundanna þegar þessu puði líkur, þó auðvitað verði maður líka mjög feginn að klára námið. Ekki er heldur verra að ég reikna með að fá smá BÓNUS við útskriftina, því ég er komin með nógu margar einingar í stúdentinn og get því væntanlega sett upp "húfuna" ef ég kæri mig um, en það kemur væntanlega í ljós í vor. Betra er seint en aldrei, skulum við segja !!!

Friday, August 22, 2008

Ber, sulta og sveppir...




Haustið er sú árstíð sem menn nota til að safna saman ávöxtum sumarsins til að geyma sem vetrarforða og hefur það verið árviss siður á mínu heimili að viðhalda þessum gamla sið á einhvern hátt. Oftast hef ég ræktað kartöflur, rifsber og jarðarber og tínt líka sveppi sem ég hef steikt og fryst og ber sem ég hef sultað/saftað, auk þess sem ég hef nógan rabbarbara í uppáhaldssultu húsbóndans.
Oft hef ég séð svartar og bláar berjabreiður í móunum bæði hér austan lands og fyrir norðan, en ég held ég hafi samt aldrei séð jafn mikið af berjum og nú í haust. Nú er sama hvort maður leitar að krækiberjum, aðalbláberjum eða bláberjum, allt er svart og blátt af berjum. Ég gat því ekki vanþakkað þessar gjafir Skaparans með því að láta þær eiga sig, heldur dreif ég mig og tíndi heilmikið og saftaði krækiberjasaft í 11 flöskur, sultaði bæði úr rabbarbara og bláberjum og nú síðast í dag úr fullu vaskafati af rifsberjunum sem dugði í 12 krúsir.
Ég tíndi líka fulla körfu af sveppum við Egilsstaði í morgun þegar ég keyrði Rúnar í flug og hreinsaði þá og steikti síðdegis í dag, þannig að nú fer búrið mitt að verða fullt af vetrarforða.
Rúnar hefur líka verið að salta fiskflök til að eiga á lager og brátt fer ég að taka upp kartöflurnar sem ég setti niður í vor, ásamt vonandi gulrótum og káli sem er orðið býsna stórt og myndarlegt. Enda hef ég í nokkrar vikur getað sótt mér blöð í salöt og súpur, án þess að högg sæi á vatni, eins og sagt er...
Ég tíndi meira að segja dálítið af fjallagrösum uppi á Bjólfi um daginn, en þar hafa þau fengið frið fyrir hreindýrum og kindum, merkilegt nokk.
Ég var semsagt að dunda mér við þessi verk í dag á meðan að íslensku handboltastrákarnir voru að tryggja sér a.m.k. silfrið á Ólympíuleikunum í Peking. Ég hafði sjónvarpið bara opið og leit á það með öðru auganu þegar mörkin voru skoruð og mikið um að vera. Það á nefnilega ekki við mig að sitja ein við sjónvarpið og gera ekki neitt... Það má því kannski segja að ég hafi slegið 2 flugur í einu höggi....!

Wednesday, August 20, 2008

Harpa og co í heimsókn




Harpa mágkona hefur staðið sig einstaklega vel við að heimsækja æskustöðvarnar þetta árið, því hún kom á sjómannadags hátíðina í vor og stoppaði þá nokkra daga. Svo mætti hún aftur hingað á mánudaginn 18. ágúst með hluta af fjölskyldunni og "nýju viðbótinni", eða alls fjögur sem dvöldu hjá okkur s.l. 2 daga. Við eyddum hluta úr degi með þeim uppi á Héraði en síðan fórum við í útsýnisferð upp á Bjólf og Rúnar fór líka með þau í siglingu um fjörðinn, en ég þurfti þá að vera í vinnunni. Og eins og gengur var mikið spjallað og mikið borðað og svo framvegis....þessa daga....!
En nú fer sumargestunum trúlega fækkandi hér með, þó enn sé von til að Jóhanna Björg og fjölskylda láti sjá sig í haust og lengi vel hef ég vonað að systir mín fari nú að heimsækja okkur en það eru orðin ansi mörg ár síðan hún og hennar fjölskylda litu Seyðisfjörð augum. Kannski kemur líka Jóndi föðurbróðir minn í minkaveiði-leiðangur og hver veit hverjir fleiri poppa upp óvænt, annað eins hefur nú gerst fyrr og síðar.

Saturday, August 16, 2008

Frábær dagur !!!




Dagurinn í dag var alveg einstaklega yndislegur veðurfarslega séð. Snemma í morgun var komin 12 stiga hiti og blanka logn sem hélst næstum í allan dag. Hitinn hækkaði eftir því sem leið á morguninn og það var stuttbuxnaveður fram á kvöld. Rúnar minn skrapp með Bubba nágranna okkar á sjó og veiddu þeir vel, enda varla hægt að fá meiri blíðu á sjó en á svona degi. Sjálf stóð ég í stórræðum við að bera út öll blómin mín, stór og smá og skipti um mold á þeim, því það fórst fyrir í vor, vegna þess hve leiðinlegt veðrið var alltaf, endalaus þoka....en gleymum því....!
Kl 5 vorum við svo mætt með borð, stóla og grillmat ásamt flestum íbúum í okkar hverfi, þar sem við grilluðum saman og áttum yndislegar stundir. Æfðum m.a. dans sem við síðan sýndum, þegar allir bæjarbúar hittust kl. 8 í kvöld. Hver hópur var með fínt dansatriði, en okkar dans fékk verðlaunin, vegna þess að við hófum dansinn á því að hver maður í hópnum sleppti blöðru á loft sem var fyllt með helium og svifu þær svo fallega til himins á meðan við dönsuðum og í lok dansins sprengdu 3 úr hópnum flottar partýsprengjur yfir hópinn svo við vorum öll útötuð í glimmerræmum og slíktu skrauti. Þetta gerði svo mikla lukku að sigurinn var í höfn.
Ég gleymdi að geta þess að bænum var skipt niður í 5 liti, hvert hverfi hafði sinn lit og væntanlega verður því haldið áfram næstu ár. Okkar litur var grænn, eins og sjá má á formönnum okkar sigurvegaranna....
Að lokum var svo kveikt í litlum bálkesti sem var búinn til úr þurrum spítum sem var raðað upp eins og krakkar raða kubbum í hús. Þetta var alveg einstaklega flott bál þó lítið væri og það logaði vel í um 2 tíma, án þess að nokkur olía eða vökvi væri settur á hann. Hann brann niður á við en ekki upp á við eins og venjan er og hann hrundi ekki út um allt eins og bálkestir vilja oft gera. Semsagt sniðug hugmynd !

Friday, August 15, 2008

Austfjarðatröllin



Heil og sæl öll sömul. Í dag, föstudaginn 14. ágúst mættu til Seyðisfjarðar nokkrir galvaskir kraftajötnar til að keppa um titilinn Austfjarðatröllið. Þetta er orðinn árlegur viðburður og ætíð keppt í sömu greinum hér á staðnum, en einnig keppa þeir í fleiri greinum á fjörðunum hér í kringum okkur.
Það er ótrúlegt hvað þessir ungu menn eru sterkir og leggja mikið á sig við þessar aflraunir sem eru venjulegu fólki ofviða.
Eins og undanfarin ár, þá var það Seyðfirðingurinn sterki Magnús Ver Magnússon sem stjórnaði keppninni með dyggri aðstoð hraustra áhugamanna.
Á milli keppnisatriða máttu heimamenn spreyta sig og þó nokkrir Seyðfirðingar tóku því tilboði, enda til nokkurs að vinna, þar sem flottur farsími af nýjustu gerð var í boði fyrir þann sem best stæði sig. Það var "sveitamaðurinn" stóri og sterki, Trausti Marteinsson sem stóð sig best af heimamönnum og sést hér spreyta sig með þungu tunnurnar í togi, en mér skilst að hvor tunna vegi 140 kg.

Sunday, August 10, 2008

Norðurland heimsótt...




Nú er ég nýkomin heim úr enn einni norðurferðinni sem gekk að flestu leyti vel. Veðrið var gott og allir hressir. Ég skrapp með mömmu og Gulla frænda austur í Arnanes að heimsækja Þórunni og Jónda og til að sýna þeim hvað þau eru búin að gera húsið fínt. Ég heimsótti líka Hillu frænku og við sátum og skoðuðum gamlar myndir og lásum gömul bréf á milli þess sem við úðuðum í okkur suðusúkklaði.
Loks dreif ég mig um hádegisbil í dag inn í Hrafnagil á Handverkssýninguna sem er þar árlega og alltaf jafn glæsileg. Meðf. myndir sýna örfá sýnishorn af því sem ég skoðaði, en þar var m.a. mikið af glervöru, svipaðri og Sigrún vinkona býr til, en ég hitti hana einmitt á sýningunni. Svo er ég mjög hrifin af máluðu steinköllunum og trévörum sem voru þarna, bæði renndar vörur og útskornar, mjög vel gert allt saman. Síðast en ekki síst eru það svo fiskibeinin sem notuð eru í þessar skemmtilegu fuglamyndir (svani o.fl.) alveg snilldar hugmynd og vel útfærð, (sjá efstu myndina).
Já það var enginn svikinn sem þarna kom, því nóg var að skoða og borða og svo hitti maður býsna marga ættingja og vini, alls staðar að af landinu og meira að segja (frændi minn) forsætisráðherra vor og frú hans voru mætt þarna á svæðið ásamt fleira góðu fólki. Ég kunni nú samt ekki við að "flassa" á þau inni í miðjum sýningarsal... ;o) Það þýðir að þið fáið enga mynd af þeim hér....!!!
Aðeins eitt atvik varð mér ekki til gleði, það voru samfundir við lögguna uppi á miðri Jökuldalsheiði, eftir að ég var nýbúin að aka fram úr bíl með hestakerru sem keyrði of hægt, en ég spýtti heldur mikið í til að komast vel framúr honum og stóð þá ekki löggubíllinn þar og blikkaði á mig.... úff...ergilegt og sektirnar eru orðnar skelfilega háar í ofanálag við himinhátt bensínverð.... hvar ætli þetta endi ?En þetta kennir manni að aka bara alltaf á "crus control" og reyna að fara ekki yfir 100 þegar maður ekur framúr "sniglunum" á vegunum, það reyndist mér ansi dýrt....

Tuesday, August 05, 2008

Verslunarmannahelgin 2008




Það hefur verið venja hjá okkur Rúnari flestar Verslunarmanna- helgar að bregða okkur eitthvað að heiman, þó ekki hafi alltaf verið farið langt. Að þessu sinni voru stödd hjá okkur vinahjón frá Húsavík, Sigrún og Haukur á Þórðarstöðum, sem höfðu áhuga á að koma með okkur á harmonikkuball út í Jökulsárhlíð. Við fórum samt fyrst í siglingu um fjörðinn áður en við lögðum af stað á húsbílnum upp á Hérað.
Þau höfðu með sér tjaldvagn sem við komum fyrir á skjólgóðum stað við Svartaskóg. Þar grilluðum við og höfðum það notalegt saman en skelltum okkur síðan út í Brúarásskóla þar sem ballið var haldið í íþróttahúsinu sem rúmaði vel allan hópinn sem mætti á svæðið. Það kom mér á óvart hve norðlendingar voru fjölmennir og hve klárir ungu strákarnir voru að spila, en 3 unglingar voru meira og minna á sviðinu ásamt þeim eldri og reyndari. Þessa drengi má alla sjá á meðf. mynd.
Ég hitti þarna óvænt mann sem heitir Sigurður Leósson. Ég hafði aldrei séð hann, en Leó faðir hans sem var húsasmiður var fósturbróðir Gunnars afa míns og byggði með honum húsið Arnanes, sem ég fæddist í. Einnig sá ég þarna konu sem var tvífari Lóu föðursystur minnar og hefði ég tekið feil ef ég hefði ekki verið nýbúin að hitta Lóu frænku, því svo líkar eru þær.
Jafnvel veðrið hefði getað verið verra, þó ekki væri það neitt sérstakt.
Semsagt góð helgi..!

Miðhúsasel í Fellum



Tengdafaðir minn Eiríkur (heitinn) Sigurðsson fæddist í Miðhúsaseli í Fellum, í gömlum torfbæ sem fékk að standa óhreyfður og síðasti íbúinn þar hélt bænum vel við á meðan hann var þar og heilsan leyfði.
Við höfum gegnum áratugina skroppið þangað af og til og töldum s.l. sumar að nú væri bærinn að hruni kominn, því að búið var að strengja net yfir þakið, eins og sést á meðf. mynd. En þegar við brugðum okkur þangað s.l. sunnudag þá var eigandi jarðarinnar þar staddur og bauð okkur að líta inn í gamla bæinn. Það er einfalt að viðurkenna að andlitin duttu af okkur þegar inn var komið, því hann var þá búinn að endurgera allt húsið upp að innan, klæða það í hólf og gólf, leggja rafmagn fyrir ljós og hita og þessi fínheit sjást hreint ekki að utan, kannski sem betur fer. Það eina sem vantar er WC og vatn, að öðru leyti er þetta fínt gistihús, þótt ótrúlegt sé.
Núverandi eigandi á engar rætur á þessum stað, þess vegna kemur það okkur ennþá meira á óvart hve mikla alúð hann hefur lagt í alla þessa vinnu á gamla bænum og gladdi það okkur ómælt.

Einstök blóm....




Ég hef alla ævi verið hrifin af blómum og var svo heppin að Theodór móðurafi minn kenndi mér að þekkja flestar íslenskar jurtir í náttúrunni og til hvers mætti nota sumar þeirra. Ég hef því fylgst með blómum og ræktað blóm áratugum saman. Það kom mér því skemmtilega á óvart í sumar að finna 2 hvítar plöntur sem eiga að vera bláar, en einhverra hluta vegna hafa þær stökkbreyst og fengið á sig snjóhvítan lit, eru eins og albinóar. Ég gat auðvitað ekki sleppt því að festa þessi blóm á mynd eins og sjá má. Svo bætti ég hér við einni rós sem er búin að vera alveg einstök. Ég keypti hana á Húsavík fyrir 100 kr. - sá hana í ruslakassanum í blómabúðinni og leist svo vel á hana að ég vildi að hún fengi að njóta sín í stað þess að hverfa í ruslið engum til ánægju. Föstudaginn 1. ág. var vika liðin frá því ég keypti hana og flutti austur. Þá tók ég meðfylgjandi mynd, því hún var ennþá eins og ný og gladdi auga mitt á hverjum degi. Það eina sem ég gerði fyrir hana var að setja hana út á svalir flestar nætur og passa að hún hefði nóg vatn í vasanum. Í dag þriðjudaginn 5. ág. er hún loksins farin að láta á sjá, en fær þó enn að standa á borðinu, enda ekkert farið að hrynja af henni ennþá.
Já undur náttúrunnar eru alls staðar í kringum okkur og gleðja okkur ef við lítum umhverfis okkur, það er þess virði að taka eftir þeim....