Friday, September 16, 2011

Borgin skoðuð !





Fyrsta daginn var lagt af stað í borgarferð, ekið um helstu götur miðborgarinnar þar sem glæsilegar byggingar blasa við allsstaðar. Mikið af þeim hafa verið endurbyggðar eða lagfærðar á síðustu árum og engin háhýsi eru í miðborginni, því reglugerð segir til um að engin hús þar megi vera hærri en Vetrahöllin. Auk þess má ekki rífa nein gömul eða illa farin hús og byggja nýtísku hús í stað þeirra, heldur verða menn að byggja alveg eins hús og það sem fyrir var, ef þeir ekki geta gert upp það gamla. Það má segja að vegna þessa haldi borgin ætíð fyrri glæsileika.
Síðan var farið út í eyju sem umgirt er rammgerðu virki utanum kirkju Péturs og Páls þar sem allt keisaraliðið af Romanoff-ættinni hvílir. Þessi kirkja er óvenju glæsileg innandyra og margt að skoða. Við hlið kirkjunnar má sjá afar sérstaka styttu af Pétri mikla sem var víst rúmir 2 metrar á hæð, langur og grannur og með óvenju lítið höfuð. Þessi stytta var lengi í ónáð, en hefur nú fengið uppreisn æru og er mjög ólík annarri opinberri styttu af sama manni sem sjá má hér til samanburðar. Margar fleiri byggingar eru þarna innan virkisveggjanna en við héldum áfram för eftir smá rölt um svæðið, þó töf yrði nokkur vegna kvennahlaups sem átti leið framhjá brúnni út í eyjuna sem stöðvaði alla umferð a.m.k. í hálftíma.
Þess má geta að sá þjóðlegi matur sem ég borðaði í þessum ferðum var bragðgóður og ekki sterkur. Ég hef smakkað bæði bragðlausa þjóðlega rétti og alltof sterka á ferðalögum erlendis og gef því Rússum plús enn einn plúsinn fyrir þessa frammistöðu.
Eina regnið sem kom þessa daga að degi til, helltist yfir á meðan við snæddum málsverð innandyra, svo að regnhlífar sem fylgdu okkar alla dagana voru aldrei opnaðar, sem betur fer. En áður en demban kom, þá voru þarna í skjóli við virkisvegginn fólk í sólbaði eins og meðfylgjandi mynd sýnir :)

No comments: