Sunday, October 23, 2011
Fyrsti vetrardagur fyrir norðan !
Við Rúnar skruppum norður til Húsavíkur á föstudagskvöldið eftir vinnu hjá mér. Það var auður vegur alla leiðina og gott færi, þó jörð væri víða orðin hvít á fjöllunum.
Fyrsti vetrardagur, laugardagurinn 22. okt. heilsaði með frosti, svo ég þurfti að skafa bílrúðurnar áður en ég skrapp í heimsókn til mömmu upp í Hvamm, en veðrið var annars stillt og bjart og snjólaust, þó sjór væri reyndar nokkuð úfinn. Vonandi verður veturinn eitthvað líkur þessum fyrsta degi, þ.e. frekar stillt veður og snjólaust. Í síðustu viku dreymdi mig nokkrar rjúpur og voru þær allar í sumarlitunum, sem fær mig til að trúa því að veturinn framundan verði líklega snjóléttur. Ég brá mér með myndavélina niður að höfn eins og við gerum svo oft og tók nokkrar myndir, m.a. af brosmilda turninum sem aldrei setur upp fýlusvip sama hvernig viðrar :)Ég er hinsvegar enn að velta vöngum yfir nafninu GARÐARSHÓLMUR sem ég hélt að ætti að vera GarðarsHÓLMI, en kannski getur einhver útskýrt þessa skrítnu beygingu fyrir mér ? Við buðum Gulla frænda í kvöldmat og áttum síðan yndæla kvöldstund hjá Önnu Mæju og Sigga. Í morgun (sunnudag) var komin slyddurigning og Húsavíkurfjall orðið gráhvítt. Við drifum okkur því af stað austur eftir hádegið og ókum í krapasnjó og slabbi alla leið frá Hólasandi og austur á Jökuldal. Stundum var svo alhvítt að ekki sá á dökkan díl og eina sem hafði annan lit, voru gulu vegstikurnar sem eru ómetanlegar á vegum landsins.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Blessuð og takk fyrir myndirnar :)
Ég botna nú ekkert í nafninu "Garðarshólmur" það var aldrei neitt sem hét það, bara Garðarshólmi, vonandi færðu skýringu. Ég kann nú betur við fjallið heima í þessum litum :):)
Kær kveðja úr sólinni á Selfossi
Post a Comment