Saturday, October 29, 2005

Vetur konungur...


Það má segja að Vetur konungur hafi sýnt flestum landsmönnum klærnar undanfarna daga, því enginn landshluti hefur farið varhluta af kulda og snjókomu.
Ég brá mér út með myndavélina í gærmorgun til að festa á "kort" eitthvað af dúnmjúkri mjöllinni sem sallaðist niður. Hún kallaði fram fyrstu jólatilfinninguna hjá mér. Mig langaði allt í einu svo mikið að setjast niður og byrja að föndra, en það hefur einmitt verður árlegur siður hjá mér að útbúa jólakortin sjálf og gjarnan bæta við einhverju nýju jóla....skrauti.
Ég ætla að trúa því, þar til annað kemur í ljós, að veðurdraumur sem mér var sagður um síðustu helgi, þýði að snjórinn staldri ekki lengi við í vetur ;-) Mestu er þó um vert að landsmenn sleppi vel frá kvefpestum og flensum, að ógleymdri fuglaflensunni sem fréttamenn hafa verið að hræða landann með að sé yfirvofandi.
En nú er tímabært að skríða undir hlýja sæng og kíkja í bókina LÍFSSÝN MÍN eftir Erlu Stefánsd. sem enginn er svikinn af að lesa, enda fjallar hún m.a. um gildi kærleikans, ótal andans heima og lífverur bæði hér og þar. Mjög forvitnilegt og fróðlegt fyrir okkur öll sem ekki höfum hlotið þá vöggugjöf að sjá slíkar sýnir.
Megið þið öll eiga góða helgi og njóta drauma sem boða gott !

1 comment:

Sólveig Sigurðardóttir said...

Blessuð Sissú !
Frábært að heyra frá þér og gaman að þú skulir ætla að setja upp ættarsíðu með myndum. Ég vil alveg endilega fylgjast með. Myndir eru mitt stóra áhugamál sem ég hrærist í daglega og ættfræðin hluti af því. Endilega leyfðu mér að fylgjast með framgangi síðunnar.
Bestu kveðjur til allra þinna.
Solla og co.