Wednesday, August 27, 2008
Á slóðum fjallkonunnar
Allt er þegar þrennt er segir máltækið og ég held það eigi við mig í dag, því ég fór í mína 3ju ferð upp á Fjarðarheiði á slóðir "fjallkonunnar okkar", eins og við gjarnan köllum svæðið þar sem bein og skart landnámskonu fannst fyrir 4 árum.
Í fyrstu ferðinni sumarið 2004 fór ég með hópi af fornleifafræðingum til að safna saman þeim perlum sem hægt var að finna á þessu erfiða svæði. Sú ferð gekk vel og margar perlur fundust, en þreytt var ég þá eftir erfiða göngu niður Vestdalinn.
Ári síðar fór ég í 6 manna hópi sem gekk alla leið frá Skíðaskálanum og til baka. Það var nokkuð strembin ganga, en gekk vel og afrakstur þeirrar ferðar voru 5 perlur sem ég skilaði fljótlega eftir að hafa fengið miklar skammir frá ónefndri konu í Rvk sem má skammast sín fyrir framkomu sína við okkur, því ekki ætluðum við að hirða perlurnar.
Það var svo fyrst í dag sem ég fór mína 3ju ferð þarna uppeftir, en þetta var önnur ferð Rúnars þangað. Í þetta sinn gengum við frá vestari enda Vestdalsvatns, en þangað komumst við á bílnum eftir skelfilega vondum vegslóða og þurftum að stoppa ótal sinnum til að fjarlægja grjót úr slóðanum, svo hægt væri að komast áfram án vandræða.
Á leiðinni á svæðið var ég svo óheppin að renna á blautum steinum hátt uppi í skriðu og detta í urðina. Fyrir vikið er ég öll lemstruð og með snúinn og auman vinstri fót. En ég má samt þakka fyrir að ekki fór ver, því ég gat gengið vandræðalítið alla leið og án stuðnings.
Ekkert fjallkonudjásn fundum við að þessu sinni við fjallkonuklettinn, enda greinilegt að mikið er búið að moka og gramsa á svæðinu þessi 3 ár sem við höfum ekki komið þar. Hvort þar voru á ferð fornleifafræðingar sem nýbúnir eru að skanna svæðið eða ferðafólk veit ég ekki, trúlega hvort tveggja.
Skúli Lórenz miðill var búinn að segja mér fyrir stuttu að ekki væri allt fundið ennþá af því sem fjallkonan hefði haft með sér og vildi drífa mig þangað sem fyrst. Ég var auðvitað að vona að við yrðum svo heppin að reka augun í eitthvað ófundið á svæðinu, en það væri satt að segja kraftaverk innan um allt stórgrýtið sem er þar um kring. Í slíka leit þarf maður annað hvort hundaheppni eða hjálpartæki og nógan tíma, en hvorugt höfðum við.
Ég var svo fegin þegar ég komst heim aftur, að ég ákvað að þetta yrði mín síðasta ferð á þessar slóðir, því svo óspennandi er að komast þangað, sama hvort það er á bíl eða gangandi. Ástæðan er náttúrulega sú, að skrokkurinn á mér er greinilega í frekar slöku formi og liðamótin farin að kvarta í hverri gönguferð, svo ég verð framvegis að halda mig við léttari leiðir ef ég vil ekki hafa verra af....!
Myndirnar sýna Rúnar á göngu eftir æva-gamalli veghleðslu, mig að horfa yfir Vestdalsvatn og stóra steina sem liggja eins og boltar út um allt á slípaðri klöpp rétt eins risar hafi verið þar að leik og skroppið frá...!
Að síðustu vil ég bjóða handboltalandsliðið okkar hjartanlega velkomið heim í dag með silfurverðlaunin frá Ólympíuleikunum í Peking.....
TIL HAMINGJU STRÁKAR !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Sit nú hér og skoða síður sem ég hef trassað lengi. Æðisleg búbót í berjum og sveppum. Fallegur litli Adam þinn, til hamingju með hann. Vildi að ég gæti farið í göngutúra, ekkert smá fallegt ímynda ég mér að labba þarna um.
Post a Comment