Saturday, October 31, 2009
Svolítið um fugla !
Þar sem ég ólst upp með fugla-áhugamönnum, þá var það óhjákvæmilegt að ég yrði að læra að þekkja flesta íslenska fugla, hljóðin í þeim og það helsta sem þeim viðkom þegar ég var barn og unglingur.
Ég hef alltaf haft gaman af fuglum, samt í hófi og hef ekki mikið reynt að troða þessum áhuga uppá fjölskyldu mína. En Rúnar, sem alltaf hefur haft afburðagóða sjón, fékk mikinn áhuga á þeim og hefur séð um fuglatalningar hér á okkar svæði í áraraðir. Ég sá hinsvegar um garðfuglatalningu í nokkuð mörg ár, en hef nú hætt því, enda eru svo fáar tegundir fugla sem heimsækja okkur yfir vetrartímann í garðinn, að það er lítið spennandi til lengdar.
Það hefur verið óvenju mikið um mófugla hér í sumar og spörfugla, en minna um vargfugla, eins og máfa og virðist því fuglavarpið hér hafa tekist nokkuð vel í ár, allavega hjá kríunni sem ekki hefur fengið frið fyrir varginum við útungunina í mörg ár.
Ég hef líka orðið vör við fleiri maríuerlur og músarindla í sumar en oftast áður og tel að þeim hafi fjölgað þó nokkuð. Nokkrir hrossagaukar hafa líka verið hér fastagestir í sumar og stutt er í stelkana sem verpa hér skammt frá.
Þeir fuglar sem ég hef séð mest af núna í haust, ef undan eru skyldar bjargdúfurnar og hænsnin í nágrannakofanum, þá eru það auðnutittlingar sem eru nú hér í margra tuga eða hundruða tali okkur til ánægju. Þeim virðist hafa fjölgað býsna mikið. Margir karlfuglarnir eru með rauðan ennistopp eins og sá sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Þeir eru velkomnir og gera engan usla. En það sama er ekki hægt að segja um hrafnana sem við sjáum daglega, þeir hafa fjölgað sér ansi mikið og eru þeir farnir að færa sig upp á skaftið og sitja hér og þar um bæinn á ljósastaurum eða í trjám og fylgjast grannt með hvort einhver setur út svartan ruslapoka, því þá eru þeir fljótir á vettvang og tæta innihald þeirra út um allt. Það mætti ætla að þeir séu orðnir of margir og hafi ekki nægilegt æti en reyni auðvitað að bjarga sér, hver sem betur getur.... Ég viðurkenni að vera ekki hrifin af því að drepa fugla. En vargfuglar fara vissulega í pirrurnar á mér, sérstaklega þegar þeir hreinsa upp alla unga og egg frá öðrum fuglum sem hingað koma. Þess vegna finnst mér ásættanlegt að fækka þeim eftir þörfum til verndar öðrum fuglum sem ég kýs frekar að hafa nálægt mér og veit að ég er ekki ein um þessa skoðun...
Monday, October 26, 2009
Lélegar myndir af fálka...
Það er ekki í frásögur færandi þó ég skreppi út og hjóli um bæinn þegar veður er skaplegt. En það er sjaldgæft að rekast á fálka hér í miðjum bænum og hvað þá með nýveidda önd, sem hann réði varla við vegna þyngdar og stærðar bráðarinnar.
Ég hjólaði í kringum lónið í gærdag eins og ég geri svo oft og var stödd rétt hjá Sýsluskrifstofunni þegar ég sá fálkann hefja sig á loft og taka hring í kringum hólmann. Ég stoppaði og sá að hann hafði verið að drepa önd sem maraði í hálfu kafi og önnur önd rétt hjá gargandi á flótta. Nærvera mín hefur sett strik í reikninginn hjá honum, en svo svangur var hann greinilega að hann hélt áfram að reyna að pikka upp dauðu öndina, en hún var of stór og þung svona blaut til að hann næði henni léttilega, hann missti eða sleppti henni aftur og aftur og hnitaði hringa yfir hólmanum og settist þar inn á milli. Ég var með litla vasamyndavél á mér og reyndi að zooma á fálkann, en myndirnar eru alveg vonlausar þegar búið er að stækka þær upp, þó hægt sé að greina að þetta sé ránfugl sem er að reyna að grípa bráð.
Því miður tókst nú ekki betur til með myndirnar í þetta skiptið. En þær styðja þó frásögnina jafnvel svona lélegar :o)
Wednesday, October 21, 2009
Pósthúsinu lokað !
Lengi getur vont versnað !
Það er leiðinlegt að nöldra, en við Seyðfirðingar erum ekki hressir yfir því hvernig kreppan hefur gert vont verra, því nóg var nú búið að plokka af okkur af atvinnutækifærum áður en kreppan kom, en nú keyrir um þverbak. Í dag er síðasti dagur sem pósthúsið okkar er opið, en á morgun þurfum við að sækja póstinn í Landsbankann sem aðeins er opinn eftir hádegi. Það er líka búið að loka vöruafgreiðslunni og lögreglustöðinni svo eitthvað sé nefnt. Margt annað var farið fyrir kreppu og þótti okkur það slæmt í öllu góðærinu, en hvernig skyldu þessi ósköp enda hér ???
Spyr sá sem ekki veit !!!
Hjálmar og hreindýrin !
Í gærmorgun þegar við vorum önnum kafin að undirbúa afhjúpun minnisvarðans, þá frétti Rúnar að góður nágranni okkar Hjálmar Níelsson hefði orðið bráðkvaddur í bíl sínum eftir að hafa verið niður á höfn að taka á móti Norrænu eins og hann er vanur. Hann komst heim á hlað en var ekki búinn að drepa á bílnum og vakti það athygli næsta nágranna sem vissi að þetta var ekki eðlilegt og skrapp yfir eins og sönnum nágranna sæmir. Þetta er í annað sinn á 3 mánuðum sem góður nágranni kveður á þennan hátt og ekki gleðiefni ef fleiri eiga eftir að fylgja, eins og svo oft vill verða hér um slóðir, að þrír fylgist að.
Við Rúnar brugðum okkur því í Blómaval á Egilsstöðum í morgun til að kaupa blóm handa Önnu frá allri stórfjölskyldunni, enda hefur hún lengi verið góð vinkona okkar og nágranni og að auki viss fjölskyldubönd síðustu árin. Þar sem hún er svo mikil blómakona, þá fannst mér ekki koma annað til greina en færa henni lifandi blóm og helst eitthvað sem hún ætti ekki eins og brönugrös, ég þykist vita að þau muni lifa lengi hjá henni, með sína grænu fingur. Ég sá líka að henni þótti vænt um að fá þau og sendi hún þakkir til allra sem hlut eiga að máli.
Á leiðinni yfir Fjarðarheiði sáum við þann stærsta hreindýrahóp sem við höfum séð, örugglega í kringum 100 dýr sem voru í rólegheitum ekki langt frá veginum í mugguhríð þar uppi og virtust una sér vel við að kroppa einhvern gróður sem enn má sjá uppúr snjónum...
Tuesday, October 20, 2009
Minnisvarðinn afhjúpaður !
Í dag 20. okt. var afhjúpaður minnisvarði um þá heiðursmenn Jón Pálsson fv. skipstjóra og félaga hans Ólaf M. Ólafsson útgerðarmann sem í 50 ár ráku saman útgerð og sköffuðu fjölda Seyðfirðinga atvinnu. Hugsjónir þeirra og velvilji í garð bæjarins og fólksins á staðnum voru þeirra áhugamál og fyrir það eru Seyðfirðingar afar þakklátir. Þessir sómamenn eru nú báðir farnir til feðra sinna og afkomendur þeirra teknir við hlutverki þeirra og óskum við þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Frá því að áhöfn Gullvers hóf fyrst máls á því að reisa minnismerki um þá félaga, hefur Rúnar minn verið potturinn og pannan við að hanna og stjórna verkinu, án þess að ég sé að halla á nokkurn félaga hans. Þeir ákváðu að gefa sjónskífu sem á væri fjallahringur Seyðisfjarðar og fengu góða staðsetningu fyrir hana hjá bæjaryfirvöldum sem tóku þessari málaleitan vel. Í landfríum sínum hefur Rúnar síðan verið meira og minna að grúska í þessu með þeim aðila sem tók að sér að smíða gripinn og tók þessi fæðing langan tíma, þar sem aldrei áður hefur verið hönnuð slík sjónskífa, svo vitað sé. Hún lítur út svipað og stór kompás og undirstaðan á að minna á vita, séð frá hlið. Nokkuð vel tókst til með verkið og athöfnin var falleg og látlaus í meinlausu veðri, þar sem fjöldi Seyðfirðinga ásamt áhöfn og ættingjum þeirra Jóns og Óla voru viðstaddir. Helga, ekkja Jóns afhjúpaði verkið eftir að Rúnar hafði flutt stutta ræðu (sem tók viku að pússla saman:)
Síðan bauð Gullberg öllum viðstöddum til veislu í félagsheimilið Herðubreið og þar var slide-show með gömlum og nýjum myndum af eigendum, áhöfn togarans og fleirum, sem skemmtilegt var að fylgjast með...
Bestu þakkir hafi allir þeir sem lögðu hönd á plóginn, fyrr og síðar !
Monday, October 19, 2009
Haustblíða og prjónaskapur
Það er búin að vera yndisleg haustblíða hér síðustu daga með hitastigi í kringum 14 gráður og farið mest í 19 gráður hjá okkur. Þetta er aldeilis munur eftir kuldakastið um daginn með snjó, hálku og frosti og ekta vetrarveðri á köflum.
Þá sat ég inni og prjónaði fyrstu peysuna sem ég hef prjónað í u.þ.b. 20 ár og hélt að ég væri alveg búin að gleyma þessu, en merkilegt nokk, þetta rifjast upp rétt eins og að synda og hjóla, maður gleymir því víst aldrei ef maður lærir það einu sinni.
Við Rúnar skruppum í gær á rúntinn í haustblíðunni og tókum nokkrar myndir, m.a. af nýju rafstöðinni í Fjarðarseli, en þar er búið að ganga mjög vel frá öllu umhverfi og gott að geta nýtt eitthvað af öllu þessu vatni sem rennur hér ofan heiðina til sjávar allan ársins hring. Nú styttist líka í að það verði 100 ár liðin síðan Fjarðarselsvirkjun, fyrsta ryðstraumsvirkjun út á bæjarkerfi á Íslandi var byggð. Sú rafstöð er í bakgrunninum og er ennþá í notkun og fróðlegt safn þar að auki. Það voru mikil tímamót í lífi Seyðfirðinga á þeim tíma, að fá rafljós á heimilin, þó okkur þyki það sjálfsagt í dag og raunar skrítið að svo stutt skuli vera síðan að tæknin hóf innreið sína hingað :o)
Thursday, October 15, 2009
Fyrsti gæsa-dinner haustsins !
Við hjónin gerðum góðan "díl" við gamlan skólabróður Rúnars á Héraði, sem er duglegur gæsaveiðimaður. Hann lét okkur hafa gæsir og fær nýjan fisk í staðinn.
Um síðustu helgi fór lítið fyrir helgarmat hjá okkur, því við borðuðum aðeins soðningu (nýja ýsu og siginn þorsk) og ákváðum því að gera okkur glaðan "GÆSADAG" í miðri viku.
Ég ákvað að bjóða Binnu og Magga í mat á þriðjudagskvöldinu 13. okt. því þá var togarinn í landi. Svo skrítilega vildi til að Binna var einmitt í prófi þetta sama kvöld, svo að maturinn beið lengur en venja er, en ég reyndi að flýta fyrir með því að sjá um að prenta svörin fyrir hana, þar sem ég er talsvert fljótari við það en hún.
Síðan nutum við þess að slappa af yfir gæsinni með rauðvíni og öðru meðlæti. Að sjálfsögðu kom Stefán Ómar líka með í mat og smakkaði á gæsinni, þó aldrei hafi hann smakkað gæs áður. Það sama má reyndar segja um þau Binnu og Magga, þetta var víst í fyrsta sinn sem þau bragða þennan ágæta matfugl, sem við kunnum svo vel að meta.
Ég held við höfum öll farið nokkuð södd og sæl í háttinn þetta kvöldið :o)
Bleikar kirkjur...
Um s.l. helgi tók ég eftir því að kirkjan á Húsavík var böðuð bleiku ljósi og veit að það var í tilefni af sölu bleiku slaufunnar, til styrktar krabbameinsleit og meðferð við þeim vágesti. En vegna veðurs lét ég vera að taka myndir af henni. Á heimleiðinni sá ég að Egilsstaðakirkja var einnig böðuð bleiku ljósi og brunaði því beint að bláu kirkjunni á Seyðisfirði er heim kom um kvöldmatarleytið, hún var semsagt búin að skipta um lit tímabundið eins og hinar.
Veðrið var ekki verra en svo að ég gat tekið meðfylgjandi mynd og minni hér með allar konur á að kaupa bleiku slaufuna og bera hana okkur sjálfum til heilla.
Veðurguðirnir snéru aldeilis við blaðinu og sendu okkur suðræna hlýju í gær og dag (14. og 15. okt.). Hitinn hér fór í 19 gráður í gær en eitthvað minna í dag, enda sunnan stekkingur og sólskin, svo allur snjór er horfinn, þar með talinn í fjöllunum.
Vonandi fáum við áfram svona "indian summer" sem lengst, helst til jóla :o)
Sunday, October 11, 2009
Listræn ljóðagerð !
Við heimsóttum Sigvalda Jónsson frænda minn og Ástu konu hans nú um helgina. Þrátt fyrir að vera bæði komin yfir áttræðisaldurinn (þau eru fædd sama dag og sama ár ) þá láta þau ekki deigan síga og eru ótrúlega dugleg að fylgjast með tímanum, m.a. með því að læra að nota tölvur.
Hann Valdi frændi er alveg einstakur ljóðasmiður og á mikið safn af ljóðum sem hann hefur aldrei birt, en mér og fleirum finnst kominn tími til að hann komi þeim á prent. Hann er reyndar byrjaður á að tölvusetja ljóðin með tilheyrandi upplýsingum og var ég aðeins að leiðbeina honum í notkun ritvinnslunnar, í von um að það hvetji hann til dáða. Einnig að aðstoða Ástu við að koma digitalmyndum á sinn stað í tölvuna og sortera þær og merkja.
Valda er fleira til lista lagt en að yrkja, því hann sker út alveg einstaklega fallega hluti, eins og veggklukkur o.fl.
Ásta hinsvegar hefur reynst föður mínum og fjölskyldu hann betur en flestir aðrir, enda ráðskona á heimili þeirra í mörg ár eftir að Sigurveig amma mín lést langt um aldur fram þegar pabbi var 15 ára.
Það er alltaf jafn frábært að hitta þau, bæði svo hress og skemmtileg og vona ég að þeim endist heilsa og aldur til að njóta sem allra mest áhugamála sinna á næstu árum.
Ég ætla að láta fljóta hér með nokkrar vísur sem ég fékk hjá Valda, þó ekki séu þær allar eftir hann. Ég valdi þær m.a. vegna þess hve óvenjulegar og skemmtilegar þær eru. Flestar þeirra voru ortar á hagyrðingamótum sem Valdi mætir oftast (ef ekki alltaf) á. Hann er samt afar lítillátur maður og vill sem minnst gera úr þessum hæfileika sínum að setja saman vísur.
Valdi þurfti að vera gestgjafi á einu Hagyrðingamóti (1992) sem haldið var í Skúlagarði í Kelduhverfi, þar bauð hann gesti velkomna með eftirfarandi vísum;
Í kvöld mun verða kveðið dátt,
kvæðalist þið metið,
sultinn líka seður brátt,
súpa og lambaketið.
Til heilla og gleði haldin er
hagyrðingavaka,
gestir nöfn sín greini hér,
góða ferð til baka.
Gestgjafarnir þurftu að svara nokkrum spurningum í bundnu máli. Ein spurningin var svona; Hvort viltu kyssa konuna þína eða konu náungans? Besta vísan að mínum dómi var eftir Kristján frá Hlíðargerði en hún var svona;
Ef mér litist á´ana
og ég vildi fá´ana
skyldi ég kaldur kyss´ana
hver sem annars ætt´ana.
Tvær konur voru fulltrúar þingeysku gestgjafanna, önnur þeirra, Ósk Þorkelsdóttir á Húsavík svaraði líka mjög skemmtilega;
Þegar góður granni þinn,
gengur pilsaveginn,
kyssi ég frekar karlinn minn
en konuna hinu megin.
Vísa fyrir ungu kynslóðina;
Þjóðin fílar fögur kvæði
og fagnar stökum vísnaþáttar,
finnst þær raunar algjört æði
og ógeðslega meiriháttar.
Þegar Hagyrðingamót var haldið á Seyðisfirði 1998, þá voru nokkrir gestir duglegir að semja um fegurð fjarðarins, enda veðrið gott.
Að lokum fljóta hér með sýnishorn af þessum vísum;
Seyðisfjarðar tæra tign
töfrum bindur gesti.
Fjallasýn og flóinn lygn
fær oss vegarnesti.
Sumarmorguns sólarbál
Seyðisfjörð nú skýrir,
eru karlar enn við skál
ekki góðu stýrir.
Öll nú skoðum okkar jörð,
eflum stoð til ljóða.
Ársól roðar fjöll og fjörð
ferð oss boðar góða.
Förum senn á ferðamið,
fæst hér gæfa nokkur.
Seyðisfjarðarsólskinið
suður fylgir okkur.
Haustheimsókn til Húsavíkur
Veðurspáin fyrir landið var nú ekki góð þegar við Rúnar lögðum af stað norður á föstudagsmorgun. En við fórum svo snemma að við vorum á undan veðrinu og allt gekk vel. Það var lítill snjór og hálka á leiðinni og fór ekki að hvessa að ráði fyrr en komið var kvöld.
Það var samt ansi haustlegt/vetrarlegt orðið um að litast á Húsavík eins og sjá má á meðfylgjandi myndum...
Við eydum auðvitað miklu af tímanum með mömmu, en einnig heimsóttum við Sigrúnu æskuvinkonu mína og nágranna og sömuleiðis Önnu Mæju og Sigga í nýja og fína bústaðinn þeirra í Öxarfirðinum. Þar var sko tekið vel á móti okkur og gaman að sjá hvað þau eru búin að gera bústaðinn fínan. Við heimsóttum og hittum fleiri ættingja og vini sem ekki verða taldir upp í bili, en á heimleiðinni í dag vorum við mjög tímanlega komin í Mývatnssveit og ákváðum því að skoða nýtt og stórmerkilegt Fuglasafn Sigurgeirs sem byggt var á Ytri-Neslöndum yfir stórt fuglasafn sem ungur maður (Sigurgeir)var búinn að koma upp áður en hann lést, langt um aldur fram.
Það er vel gert af ættingjum hans og vinum að halda á lofti minningu hans á þennan hátt og alveg bráðnauðsynlegt að við landsmenn styðjum þau við greiðslu á kostnaði, með því að sækja safnið heim og skoða það vandlega, það er alveg þess virði.
Sérstaklega held ég að gaman sé að koma þarna á vorin og sumrin og fylgjast með fuglalífinu á vatninu, en þau eru með fuglakíkira fyrir gesti og litla kofa sem hægt er að dvelja í ef maður vill komast nær fuglunum til skoðunar og myndatöku.
Ég hvet því alla sem hafa gaman af að skoða fallega fugla og styðja gott málefni að koma þar við þegar ferð fellur um nágrennið :o)
Sunday, October 04, 2009
Veturinn mættur ???
Nú virðist vetur kóngur mættur, því að í gærmorgun var komin kafhríð með hundslappadrífu, svo allur gróður slúpti og hékk undan snjóþunganum. Ég smellti þá af fyrstu myndinni út um dyrnar hjá mér. En í morgun skrapp ég upp á Hérað og smellti af hinum tveimur sem hér fylgja með. Þá sást vel hve vetrarlegt er orðið.
Ég missti af tækifærinu til að taka myndir af haustlitunum sem sjá mátti hér um allar fjallshlíðar, því miður. Ég hafði öðru að sinna, nýkomin úr ferðalagi og reiknaði ekki svona fljótt með snjókomunni, sem stundum hefur ekki séðst fyrr en í desember. Vonandi bræðir sólin þessa hvítu breiðu sem fyrst, svo við fáum auða jörð lengur fram eftir hausti og þurfum ekki að setja vetrardekkin strax undir bílana :o)
Saturday, October 03, 2009
Haustroði 03.10.09
Í dag var haldin árleg hausthátið Seyðfirðinga sem nefnd er HAUSTROÐI. Af því tilefni var fólki boðið að taka þátt í sultukeppni og ljósmyndasamkeppni. Þar sem ég hef haft fyrir sið áratugum saman að malla sultur úr berjum og fleiru á hverju hausti, þá mátti ég til með að sýna lit og taka þátt. Einnig átti ég nóg af ljósmyndum og dreif því nokkrar myndir í keppnina. Ekki fékk ég verðlaun fyrir mynd í þetta sinn (eins og í fyrra) en í staðin fékk ég aðalverðlaunin fyrir SÓLBERJA- SULTUNA sem ég sauð nú í fyrsta sinn og var að vonum bæði hissa og glöð þegar úrslitin voru kunngjörð nú síðdegis. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, því auk þess að fá rós með mér heim, þá fékk ég líka fulla körfu af austfirsku góðgæti, þ.e.a.s. piparkökur og fíflahunang frá Skriðuklaustri, lífrænt ræktað korn frá Vallanesi (Móður jörð), hangikjöt frá Möðrudal og síðast en ekki síst boðskort fyrir tvo á jólahlaðborðið sem verður hér á Öldunni þegar líða tekur að hátíðum. Margar góðar sultur voru í keppninni og var ég sérstaklega hrifin af einni sem búin er til úr rabbarbara, eplum, gulrótum og sykri, hún hefði fengið fyrstu verðlaun frá mér :o)
Fjöldi fólks var líka með flóamarkað (ekki ósvipað og Kolaportið) á þremur stöðum í bænum og ég rúllaði á milli þeirra og keypti eitthvað á hverjum stað, m.a. nýbökuð kryddbrauð og bananabrauð sem gott er að eiga í frystinum þegar minn maður kemur heim. Ég keypti líka nokkrar kiljur, matreiðslubók og ný föt svo eitthvað sé nefnt.
Þetta varð því hinn ánægjulegasti dagur, þó ekki hafi hann byrjað vel, því fyrsta hríð haustsins skall hér á í morgun og jörð er orðin alhvít. Það er því vetrarlegt um að litast. En þá er gott að kúra inni undir teppi og dunda sér við lestur eða handavinnu eða annað skemmtilegt. Ég er reyndar byrjuð á peysu handa Adam ömmustrák og vona að mér takist að klára hana a.m.k. tímanlega fyrir jól :o)
Subscribe to:
Posts (Atom)