Tuesday, October 20, 2009

Minnisvarðinn afhjúpaður !






Í dag 20. okt. var afhjúpaður minnisvarði um þá heiðursmenn Jón Pálsson fv. skipstjóra og félaga hans Ólaf M. Ólafsson útgerðarmann sem í 50 ár ráku saman útgerð og sköffuðu fjölda Seyðfirðinga atvinnu. Hugsjónir þeirra og velvilji í garð bæjarins og fólksins á staðnum voru þeirra áhugamál og fyrir það eru Seyðfirðingar afar þakklátir. Þessir sómamenn eru nú báðir farnir til feðra sinna og afkomendur þeirra teknir við hlutverki þeirra og óskum við þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Frá því að áhöfn Gullvers hóf fyrst máls á því að reisa minnismerki um þá félaga, hefur Rúnar minn verið potturinn og pannan við að hanna og stjórna verkinu, án þess að ég sé að halla á nokkurn félaga hans. Þeir ákváðu að gefa sjónskífu sem á væri fjallahringur Seyðisfjarðar og fengu góða staðsetningu fyrir hana hjá bæjaryfirvöldum sem tóku þessari málaleitan vel. Í landfríum sínum hefur Rúnar síðan verið meira og minna að grúska í þessu með þeim aðila sem tók að sér að smíða gripinn og tók þessi fæðing langan tíma, þar sem aldrei áður hefur verið hönnuð slík sjónskífa, svo vitað sé. Hún lítur út svipað og stór kompás og undirstaðan á að minna á vita, séð frá hlið. Nokkuð vel tókst til með verkið og athöfnin var falleg og látlaus í meinlausu veðri, þar sem fjöldi Seyðfirðinga ásamt áhöfn og ættingjum þeirra Jóns og Óla voru viðstaddir. Helga, ekkja Jóns afhjúpaði verkið eftir að Rúnar hafði flutt stutta ræðu (sem tók viku að pússla saman:)
Síðan bauð Gullberg öllum viðstöddum til veislu í félagsheimilið Herðubreið og þar var slide-show með gömlum og nýjum myndum af eigendum, áhöfn togarans og fleirum, sem skemmtilegt var að fylgjast með...
Bestu þakkir hafi allir þeir sem lögðu hönd á plóginn, fyrr og síðar !

1 comment:

Asdis Sig said...

Til hamingju með þetta, það er örugglega gaman fyrir ferðamenn að skoða fjallahringinn með svona góða leiðsögn og fræðandi fyrir ungu kynslóðina. Kær kveðja