Saturday, October 31, 2009
Svolítið um fugla !
Þar sem ég ólst upp með fugla-áhugamönnum, þá var það óhjákvæmilegt að ég yrði að læra að þekkja flesta íslenska fugla, hljóðin í þeim og það helsta sem þeim viðkom þegar ég var barn og unglingur.
Ég hef alltaf haft gaman af fuglum, samt í hófi og hef ekki mikið reynt að troða þessum áhuga uppá fjölskyldu mína. En Rúnar, sem alltaf hefur haft afburðagóða sjón, fékk mikinn áhuga á þeim og hefur séð um fuglatalningar hér á okkar svæði í áraraðir. Ég sá hinsvegar um garðfuglatalningu í nokkuð mörg ár, en hef nú hætt því, enda eru svo fáar tegundir fugla sem heimsækja okkur yfir vetrartímann í garðinn, að það er lítið spennandi til lengdar.
Það hefur verið óvenju mikið um mófugla hér í sumar og spörfugla, en minna um vargfugla, eins og máfa og virðist því fuglavarpið hér hafa tekist nokkuð vel í ár, allavega hjá kríunni sem ekki hefur fengið frið fyrir varginum við útungunina í mörg ár.
Ég hef líka orðið vör við fleiri maríuerlur og músarindla í sumar en oftast áður og tel að þeim hafi fjölgað þó nokkuð. Nokkrir hrossagaukar hafa líka verið hér fastagestir í sumar og stutt er í stelkana sem verpa hér skammt frá.
Þeir fuglar sem ég hef séð mest af núna í haust, ef undan eru skyldar bjargdúfurnar og hænsnin í nágrannakofanum, þá eru það auðnutittlingar sem eru nú hér í margra tuga eða hundruða tali okkur til ánægju. Þeim virðist hafa fjölgað býsna mikið. Margir karlfuglarnir eru með rauðan ennistopp eins og sá sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Þeir eru velkomnir og gera engan usla. En það sama er ekki hægt að segja um hrafnana sem við sjáum daglega, þeir hafa fjölgað sér ansi mikið og eru þeir farnir að færa sig upp á skaftið og sitja hér og þar um bæinn á ljósastaurum eða í trjám og fylgjast grannt með hvort einhver setur út svartan ruslapoka, því þá eru þeir fljótir á vettvang og tæta innihald þeirra út um allt. Það mætti ætla að þeir séu orðnir of margir og hafi ekki nægilegt æti en reyni auðvitað að bjarga sér, hver sem betur getur.... Ég viðurkenni að vera ekki hrifin af því að drepa fugla. En vargfuglar fara vissulega í pirrurnar á mér, sérstaklega þegar þeir hreinsa upp alla unga og egg frá öðrum fuglum sem hingað koma. Þess vegna finnst mér ásættanlegt að fækka þeim eftir þörfum til verndar öðrum fuglum sem ég kýs frekar að hafa nálægt mér og veit að ég er ekki ein um þessa skoðun...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Einhver sem las bloggið mitt, sagði að litli auðnutittlingurinn væri af finkutegund. Mér finnst krummi skemmtilegur, hann er töluvert hér fyrir utan blokkina, enda finnst honum gaman að svífa í uppsteyminu. Það var algjör skilda að þekkja öll fuglahljóð þegar ég var lítil. Pabbi var mjög duglegur að fara með okkur í göngur milli fjalls og fjöru og þekkti ég alla algengustu fugla og fannst það gaman, fræðsla sem ég bý enn að. Kær kveðja austur.
Post a Comment