Wednesday, October 21, 2009

Hjálmar og hreindýrin !



Í gærmorgun þegar við vorum önnum kafin að undirbúa afhjúpun minnisvarðans, þá frétti Rúnar að góður nágranni okkar Hjálmar Níelsson hefði orðið bráðkvaddur í bíl sínum eftir að hafa verið niður á höfn að taka á móti Norrænu eins og hann er vanur. Hann komst heim á hlað en var ekki búinn að drepa á bílnum og vakti það athygli næsta nágranna sem vissi að þetta var ekki eðlilegt og skrapp yfir eins og sönnum nágranna sæmir. Þetta er í annað sinn á 3 mánuðum sem góður nágranni kveður á þennan hátt og ekki gleðiefni ef fleiri eiga eftir að fylgja, eins og svo oft vill verða hér um slóðir, að þrír fylgist að.
Við Rúnar brugðum okkur því í Blómaval á Egilsstöðum í morgun til að kaupa blóm handa Önnu frá allri stórfjölskyldunni, enda hefur hún lengi verið góð vinkona okkar og nágranni og að auki viss fjölskyldubönd síðustu árin. Þar sem hún er svo mikil blómakona, þá fannst mér ekki koma annað til greina en færa henni lifandi blóm og helst eitthvað sem hún ætti ekki eins og brönugrös, ég þykist vita að þau muni lifa lengi hjá henni, með sína grænu fingur. Ég sá líka að henni þótti vænt um að fá þau og sendi hún þakkir til allra sem hlut eiga að máli.
Á leiðinni yfir Fjarðarheiði sáum við þann stærsta hreindýrahóp sem við höfum séð, örugglega í kringum 100 dýr sem voru í rólegheitum ekki langt frá veginum í mugguhríð þar uppi og virtust una sér vel við að kroppa einhvern gróður sem enn má sjá uppúr snjónum...

1 comment:

Anonymous said...

Sæl.
Var að sjá þetta blogg hjá þér.
Þetta er fallagt blogg hjá þér Solla mín.
Jón Halldór