Sunday, October 11, 2009

Listræn ljóðagerð !


Við heimsóttum Sigvalda Jónsson frænda minn og Ástu konu hans nú um helgina. Þrátt fyrir að vera bæði komin yfir áttræðisaldurinn (þau eru fædd sama dag og sama ár ) þá láta þau ekki deigan síga og eru ótrúlega dugleg að fylgjast með tímanum, m.a. með því að læra að nota tölvur.
Hann Valdi frændi er alveg einstakur ljóðasmiður og á mikið safn af ljóðum sem hann hefur aldrei birt, en mér og fleirum finnst kominn tími til að hann komi þeim á prent. Hann er reyndar byrjaður á að tölvusetja ljóðin með tilheyrandi upplýsingum og var ég aðeins að leiðbeina honum í notkun ritvinnslunnar, í von um að það hvetji hann til dáða. Einnig að aðstoða Ástu við að koma digitalmyndum á sinn stað í tölvuna og sortera þær og merkja.
Valda er fleira til lista lagt en að yrkja, því hann sker út alveg einstaklega fallega hluti, eins og veggklukkur o.fl.
Ásta hinsvegar hefur reynst föður mínum og fjölskyldu hann betur en flestir aðrir, enda ráðskona á heimili þeirra í mörg ár eftir að Sigurveig amma mín lést langt um aldur fram þegar pabbi var 15 ára.
Það er alltaf jafn frábært að hitta þau, bæði svo hress og skemmtileg og vona ég að þeim endist heilsa og aldur til að njóta sem allra mest áhugamála sinna á næstu árum.
Ég ætla að láta fljóta hér með nokkrar vísur sem ég fékk hjá Valda, þó ekki séu þær allar eftir hann. Ég valdi þær m.a. vegna þess hve óvenjulegar og skemmtilegar þær eru. Flestar þeirra voru ortar á hagyrðingamótum sem Valdi mætir oftast (ef ekki alltaf) á. Hann er samt afar lítillátur maður og vill sem minnst gera úr þessum hæfileika sínum að setja saman vísur.
Valdi þurfti að vera gestgjafi á einu Hagyrðingamóti (1992) sem haldið var í Skúlagarði í Kelduhverfi, þar bauð hann gesti velkomna með eftirfarandi vísum;

Í kvöld mun verða kveðið dátt,
kvæðalist þið metið,
sultinn líka seður brátt,
súpa og lambaketið.

Til heilla og gleði haldin er
hagyrðingavaka,
gestir nöfn sín greini hér,
góða ferð til baka.


Gestgjafarnir þurftu að svara nokkrum spurningum í bundnu máli. Ein spurningin var svona; Hvort viltu kyssa konuna þína eða konu náungans? Besta vísan að mínum dómi var eftir Kristján frá Hlíðargerði en hún var svona;

Ef mér litist á´ana
og ég vildi fá´ana
skyldi ég kaldur kyss´ana
hver sem annars ætt´ana.


Tvær konur voru fulltrúar þingeysku gestgjafanna, önnur þeirra, Ósk Þorkelsdóttir á Húsavík svaraði líka mjög skemmtilega;

Þegar góður granni þinn,
gengur pilsaveginn,
kyssi ég frekar karlinn minn
en konuna hinu megin.


Vísa fyrir ungu kynslóðina;

Þjóðin fílar fögur kvæði
og fagnar stökum vísnaþáttar,
finnst þær raunar algjört æði
og ógeðslega meiriháttar.


Þegar Hagyrðingamót var haldið á Seyðisfirði 1998, þá voru nokkrir gestir duglegir að semja um fegurð fjarðarins, enda veðrið gott.
Að lokum fljóta hér með sýnishorn af þessum vísum;

Seyðisfjarðar tæra tign
töfrum bindur gesti.
Fjallasýn og flóinn lygn
fær oss vegarnesti.

Sumarmorguns sólarbál
Seyðisfjörð nú skýrir,
eru karlar enn við skál
ekki góðu stýrir.

Öll nú skoðum okkar jörð,
eflum stoð til ljóða.
Ársól roðar fjöll og fjörð
ferð oss boðar góða.

Förum senn á ferðamið,
fæst hér gæfa nokkur.
Seyðisfjarðarsólskinið
suður fylgir okkur.

1 comment:

Asdis Sig. said...

Skemmtilegar vísur, ætla að bæta þeim í safnið mitt. Gaman að sjá Sigvalda, hann er svo ljúfur maður, man vel eftir honum, við spjölluðum oft saman ef við hittumst á förnum vegi þegar ég bjó heima frá ´79-'83 ljúfur maður. Takk fyrir að deila þessu.
kær kveðja