Sunday, October 11, 2009

Haustheimsókn til Húsavíkur





Veðurspáin fyrir landið var nú ekki góð þegar við Rúnar lögðum af stað norður á föstudagsmorgun. En við fórum svo snemma að við vorum á undan veðrinu og allt gekk vel. Það var lítill snjór og hálka á leiðinni og fór ekki að hvessa að ráði fyrr en komið var kvöld.
Það var samt ansi haustlegt/vetrarlegt orðið um að litast á Húsavík eins og sjá má á meðfylgjandi myndum...
Við eydum auðvitað miklu af tímanum með mömmu, en einnig heimsóttum við Sigrúnu æskuvinkonu mína og nágranna og sömuleiðis Önnu Mæju og Sigga í nýja og fína bústaðinn þeirra í Öxarfirðinum. Þar var sko tekið vel á móti okkur og gaman að sjá hvað þau eru búin að gera bústaðinn fínan. Við heimsóttum og hittum fleiri ættingja og vini sem ekki verða taldir upp í bili, en á heimleiðinni í dag vorum við mjög tímanlega komin í Mývatnssveit og ákváðum því að skoða nýtt og stórmerkilegt Fuglasafn Sigurgeirs sem byggt var á Ytri-Neslöndum yfir stórt fuglasafn sem ungur maður (Sigurgeir)var búinn að koma upp áður en hann lést, langt um aldur fram.
Það er vel gert af ættingjum hans og vinum að halda á lofti minningu hans á þennan hátt og alveg bráðnauðsynlegt að við landsmenn styðjum þau við greiðslu á kostnaði, með því að sækja safnið heim og skoða það vandlega, það er alveg þess virði.
Sérstaklega held ég að gaman sé að koma þarna á vorin og sumrin og fylgjast með fuglalífinu á vatninu, en þau eru með fuglakíkira fyrir gesti og litla kofa sem hægt er að dvelja í ef maður vill komast nær fuglunum til skoðunar og myndatöku.
Ég hvet því alla sem hafa gaman af að skoða fallega fugla og styðja gott málefni að koma þar við þegar ferð fellur um nágrennið :o)

1 comment:

Asdis Sig. said...

Skemmtilegar myndir hér á ferð, gaman að´sjá víkinga mína í haustfötum, hugurinn reikar oft norður. Ég á eftir að sjá safnið hans Sigurgeirs frænda, hlakka mikið til ef ég kemst norður, ég er svo stolt af þessu framtaki frændfólksins míns, það eru tveir bræður úr þessum systkynahóp farin, dóu allt of ungir. Kær kveðja