Sunday, August 23, 2009
Haust-uppskera helgarinnar...
Vegna óhagstæðrar veðurspár og ótta við næturfrost, þá tók ég þá ákvörðun að nota þessa helgi til að tína eins mikið af berjum og vinna úr þeim og kostur væri.
Á föstudaginn tókst mér að hirða stóran part af rifsberjunum í garðinum sem voru orðin rjóð og búa til hlaup í 7 krúsir. Í gær (22/8) var veðrið svo yndislegt að ég gat tínt heil ósköp af krækiberjum og bláberjum og er nú búin að sulta í samtals 13 bláberjakrúsir og stóran fullan pott af blandaðri hrásaft sem ég frysti í plastflöskum svo saftin verði eins og ný allan veturinn. Það er ekki amalegt að eiga nóg af þessu holla góðgæti þegar skammdegið hellist yfir :o)
Wednesday, August 19, 2009
Spænsk matarveisla
Í gærkvöld 18. ágúst lentum við Rúnar í aldeilis frábærri matarveislu hjá Binnu og Magga. Þetta er í annað sinn sem okkur er boðið þangað í spænska matarveislu, en þær dugnaðarkonur Stefanía dóttir Binnu og Ágústa Berg eru sérfróðar um spænska matargerð og Ágústa eigandi að sérstakri Paellu-pönnu sem þær stöllur notuðu til að elda aðalréttinn. En auk þess voru alls konar Tapas réttir í boði, eins og djúpsteiktur smokkfiskur, kartöflueggjakökur o.m.fl. góðgæti sem sjá má á meðf. mynd.
Allir lögðu sig fram um að borða sem mest en ekki tókst samt að klára alla réttina. Þó lítið pláss væri eftir innvortis fyrir eftirréttina sem ekki voru heldur af verri endanum, þá var ekki hægt að sniðganga þá, þó maður væri pakksaddur upp í kok :o)
Þakka ég þeim öllum, Binnu, Magga, Stefaníu og Ágústu sem og öðrum viðstöddum fyrir frábært kvöld..........
Saturday, August 15, 2009
Grillhátíð 2009
Grillhátíð Seyðfirðinga var haldin hátíðleg í dag og hófst kl. 13 þegar íbúar byrjuðu að skreyta sitt svæði og undirbúa kvöldið. Að þessu sinni ákvað skipulagsnefnd dagsins að skella saman græna og appelsínugula svæðinu annars vegar og hins vegar bláa og rauða svæðinu, þannig að nú voru svæðin bara 3 í stað 5 áður.
Kl 17 var byrjað að grilla og að máltíð lokinni tók við kennslustund í dansi, þar sem 3 ungar stúlkur höfðu samið dans við hressilegt rokklag og meirihluti mættra tók þátt. Einnig þurfti að læra hverfissönginn sem var stutt og auðlært viðlag.
Loks var þrammað af stað niður á miðbæjartorg, þar sem hóparnir hittust og kepptu um farandbikarinn (frá Daða)sem við í græna hverfinu unnum í fyrra. Að þessu sinni urðum við að afhenda bleika liðinu bikarinn. Ég hélt að til hefði staðið að veita líka verðlaun fyrir besta hverfissönginn og fleira, en eitthvað fór það úr skorðum.
Eftir varðeld, söng og dans og heilmikið spjall, drifum við Rúnar okkur heim fyrir miðnætti, enda þurfti ég að ganga frá myndum kvöldsins og velja nokkrar til að senda til Austurgluggans.
Við Rúnar tókum smá hlé í dag frá til að skoða skreytingar sem fólk var búið að setja við hús sín víða um bæinn. Sjálf vorum við búin að skreyta hjá okkur (sjá sýnishorn á meðf. mynd) og gaman var að sjá ólíkar útgáfur í öllum litum :o)
Veðrið hefði mátt vera hlýrra og betra, en þakka má þó fyrir að ekki var rigning, þó aðeins kæmi smá súld um tíma, þá var það bara sýnishorn... og við fengum meira að segja smá sól, sem var FRÁBÆRT þó stutt væri. Ég þorði ekki annað en að dúða mig í kuldagalla, enda var mér frekar of heitt en kalt, sem betur fer...
....og nú er víst kominn tími til að drífa sig í háttinn, enda orðið vel framorðið - geisp...!
Sunday, August 09, 2009
Geitungar í garðinum !!!
Í dag, sunnudaginn 9. ágúst, fór hitinn á svölunum hjá okkur uppí 45,7 stíg á móti sólu en í skugganum fór hinn mælirinn í 26 gráður. Við notuðum daginn til að vinna í garðinum, því þar eru endalaus verk sem þyrfti að vinna oftar og betur, m.a. að klippa gróðurinn og hreinsa illgresi úr blómabeðum og víðar.
Þegar við vorum önnum kafin við að klippa viðjuna á milli húsanna, þá birtist allt í einu geitungahópur (líklega hátt í 20 flugur) svo við fórum að horfa í kringum okkur og sáum þá lítið bú vandlega falið á stóru hvalbeini sem pabbi lét mig hafa eitt sinn sem sæti í garðinn. Eins og sjá má þá hefur lítil reyniviðarplanta fest rætur við hliðina á beininu og smeygt sér upp í gegnum mænugöngin, þar sem ég setti eitt sinn kringlóttan stein, sem flugurnar hafa nú notað til að festa búið sitt á. Það hangir semsagt í góðu skjóli, en hrædd er ég um að þær fái nú ekki mikið lengur að dvelja þar í friði. Við höfum varla séð geitunga í sumar, enda hefur veðrið ekki verið hagstætt fyrir þær hér hjá okkur. En við vonum auðvitað að framhald verði á þessu góða veðri sem við höfum nú haft í 3 heila daga :o)
Saturday, August 08, 2009
Siglt til Húsavíkur-eystri og í Lotnu !
Í tilefni af því að veðurguðirnir miskunnuðu sig yfir okkur annan daginn í röð með sól og blíðu, þá var ákveðið að skreppa í siglingu og skoða litlu víkina LOTNU sem er ótrúlega gott skjól fyrir báta á ólíklegasta stað, fremst (austast) á Álftavíkurbjargi. Þangað hafði ég aldrei komið og fannst mikið til um hve vel hún er falin, því ég sá hana ekki fyrr en við vorum komin fast að rennunni við klettana og sá ekki betur en hún væri of þröng fyrir bátinn, en við sluppum vel í gegn og inni fyrir var logn á víkinni og fullt af öndum og skarfur, sem flúðu þetta ónæði sem við ollum þeim. Rúnar sigldi upp að klettavegg sem ég gat stokkið uppá til að taka myndir og gekk í hálfhring um svæðið og fann þar stórar og miklar húsatóftir. Þarna var víst búið nokkuð lengi og ég er búin að frétta hverjir síðustu ábúendurnir voru, en langar að kanna það nánar, því svona eyðistaðir kalla heilmikið á forvitni mína um mannlíf fyrri tíma á slíkum stöðum.
Rúnar langaði að skreppa yfir í Húsavík eystri og siglingin þangað gekk vel. Ég var með stóru aðdráttarlinsuna hans Halla Más með mér og gat því tekið nærmyndir af húsunum þar, þó langt væri í land. En ég hef ekki komið til Húsavíkur í tæp 30 ár, en þá var kassi fullur af mannabeinum staðsettur í kirkjunni og við sáum bein standa út úr sjávarbakkanum, þar sem kirkjugarðurinn var, en hann er smám saman að hrynja í sjóinn.
Á heimleiðinni var kominn mikill strekkingur, svo að báturinn steypti stömpum og sjór gusaðist yfir hann, svo ég neyddist til að flýja inn í stýrishúsið og reyndi við illan leik að skorða mig þar, en fékk slæman höfuðverk með tilheyrandi velgju, svo að greinilega er ég ekki sjóhraust, þó ekkert meira yrði úr þessu, því ég náði að jafna mig eftir að við komumst inn fyrir Brimnesið, þar var rólegra í sjóinn.
Örstutt frá Selstöðum var fiskikar í fjörunni sem Rúnar hafði hug á að ná í tog og fara með heim. Við vorum svo heppin að Unnar Sveinlaugs var þarna á rúntinum og hljóp niður í fjöru og tók við spotta sem við hentum í land og festi í karið sem síðan sigldi með okkur heim á bryggjuna hjá Dvergasteini, enda merkt fyrirtækinu.
Nú er bjartur og góður dagur að kveldi kominn og við þakklát fyrir hann og vonum að fleiri sólardagar fylgi í kjölfarið...
07.08.09 = Flott dagsetning !
Í gær, þann 7. ágúst 2009 skrapp ég i góðu veðri upp á Hérað til að kanna hvort ekki væru komnir sveppir og bláber. Meiri líkur voru á að finna eitthvað slíkt Egilsstaða-megin við heiðina. Ég ákvað að kíkja í nýja lerkiskóginn á sléttlendinu við rætur heiðarinnar og fann þar heilan helling af þroskuðum bláberjum. Mikið af þeim voru í smærra lagi, en það gerði ekkert til. Ég tíndi fullan dall og snéri mér svo að sveppunum sem voru allt um kring, en misgóðir eins og gengur, því mikið af þeim var ónothæft vegna rigninga, aldurs og sniglaárása.
En ég náði samt að tína fulla körfuna áður en ég brenndi niður í Bónus og verslaði í helgarmatinn og rúmlega það.
Ég endaði svo daginn á því að hreinsa sveppina, steikja þá í smjöri og frysta í 15 litlum plastdöllum sem ætti að duga í pottrétti og sósur hjá okkur tveimur í vetur.
Berjadeser var toppurinn á góðum degi !
Ég ætla ekki að gleyma að minnast á keisara-aspirnar sem eru hér á nokkrum stöðum í bænum og allar hlaðnar hvítum frjó-reklum, sem frjóin fjúka af núna eins og hvít hundslappadrífa um allan bæ. Eins gott að ekki vaxi aspir upp af öllum þessum fræjum, því þá yrði ekki pláss fyrir aðra íbúa hér lengur :o)
Thursday, August 06, 2009
RISA farþegaskip
Í dag, fimmtudaginn 6. ágúst er vikulegur ferjudagur á Seyðisfirði. Færeyska ferjan Norröna mætti hér stundvíslega í morgunn eins og flesta fimmtudags-morgna yfir sumarið. En á sama tíma mættu tvö önnur risaskip og tóku sitt pláss eins og sjá má á skipinu sem lagði við bryggjuna hjá Fiskvinnslunni og Angró og náði yfir að skipasmíðastöðinni, semsagt engin smá fleyta.
Þetta er a.m.k. í annað skiptið í sumar sem þrjú skip eru hér samtímis og oft hafa þau verið tvö á dag, enda verður bærinn yfirþyrmandi fullur af fólki og bílum þegar svona stendur á og varla hægt að komast leiðar sinnar nema helst fótgangandi.
Þetta er auðvitað gott og blessað og engin ástæða að kvarta. Ég viðurkenni þó að vera orðin leið á veðrinu hérna, sem mætti vera sólríkara og bjartara yfir sumarið, jafnt okkar íbúanna vegna sem og ferðamanna. En þokan og bleytan hafa gert sitt gagn, þar sem allur gróður vex og vex úr hófi fram og það eru komin nokkuð stór og góð ber. En allir sveppir hljóta að vera löngu ónýtir í allri þessari vætu. Næst á dagskrá verður að kíkja á þessar gjafir jarðar og reyna að bjarga einhverju í hús...
Wednesday, August 05, 2009
Seinni hluti hringferðarinnar...
Eftir að við lögðum af stað frá Reykjavík, austur um til Seyðisfjarðar, þá tókum við því frekar rólega, því veðrið var svo gott. Við fórum fyrst í bústaðina til Lóu föðursystur minnar á Þingvöllum og þaðan til Önnu móðursystur Rúnars í Grímsnesinu. Síðast litum við inn hjá skólasystur sem býr á Selfossi. Þaðan lá leiðin á Kirkjubæjarklaustur þar sem við gistum á notalegu tjaldstæði, þar sem fólk skemmti sér hóflega, söng og skaut upp fádæma fallegum flugeldum og allir voru síðan til friðs um nóttina. Við tókum myndir af Systrastapa, kirkjugólfinu og tröllatippinu áður en við yfirgáfum staðinn næsta morgunn.
Seinni heimferðardaginn skoðuðum við m.a. Þórbergssetur á Hala í Suðursveit, en héldum svo ótrauð heim í þokumettaðan Seyðisfjörð sem beið okkar regnvotur. Og síðan hefur varla stytt upp, rigningin er eins og skýfall á köflum og Fjarðaráin orðin mórauð og fyrirferðarmikil.
Reynir bóndi dvaldi hér einn í húsinu á meðan við vorum fjarverandi og passaði það vel, en hann kvaddi í kvöld og dreif sig suður á ný, enda sonur hann mættur til að verða honum samferða...
Fleiri myndir úr hringferðinni...
Á flestum ferðum okkar um Ísland höfum við annað hvort verið að fara á milli tveggja staða og sleppt því að skoða nokkuð á leiðinni eða við höfum farið sérstakar ferðir í þeim tilgangi að skoða þann landshluta eða stað sem við förum til hverju sinni. En í þetta sinn gerðum við hvort tveggja að skoða okkur svolítið um og heimsækja vini og vandamenn sem við sjaldan eða aldrei höfum heimsótt á núverandi stöðum. Þetta fyrirkomulag var mjög skemmtilegt, við stoppuðum stutt hjá hverjum og slepptum engum af þeim sem til stóð að líta til. Ég meira að segja fór með Hörpu mágkonu á mánaðarlegan hitting seyðfirskra kvenna á Salatbarinn, sem reyndist vera lokaður í þetta sinn en við fundum annað nálægt veitingahús til að sitja á, spjalla og fá okkur smá næringu. Það mættu 10 konur og 2 karlmenn að auki og það var glatt á hjalla og veðrið mjög gott.
Meðan við dvöldum fyrir sunnan brugðum við okkur eitt kvöldið í bíó að sjá myndina -Karlar sem hata konur-, hún var næstum jafn góð og bókin og Rúnar sem ekki var búinn að lesa hana, fann ekkert athugavert við myndina og fannst hún bara fín.
Veitingahúsið sem Mo og Jóhanna ætla að hefja rekstur á fyrir Ljósanótt, tók sinn tíma, því við vorum þar af og til að þrífa og laga til, enda mikið verk að koma öllu í starfhæft form á ný, eftir subbuganginn sem hafði viðgengist þar áður.
Síðast en ekki síst þá hittust margir ættingjar Rúnars í Mexícósúpu hjá Hörpu og sátu utandyra að snæðingi og nutu kvöldsólarinnar...
Tuesday, August 04, 2009
Hringferð um landið
Eftir að Mærudögum lauk á Húsavík, hélt Jóhanna suður en leyfði okkur Rúnari að hafa Adam ömmu-og afastrák og fórum við síðan af stað með hann í húsbílnum vestur á Snæfellsnes með viðkomu á ýmsum stöðum. Við heimsóttum gamla skólasystur sem er hestamaður í Skagafirði og hennar fjölskyldu, síðan aðra vinkonu í Búðardal. Þaðan fórum við til ættingja Rúnars á Grundarfirði og heilsuðum síðan uppá Hörra Hilmars sem átti einmitt hálfrar aldrar afmæli. Loks var komið við hjá kartöflubændum í Staðarsveitinni og tómatbændum í Borgarfirði, en önnur er gömul vinkona sem ég hef aldrei heimsótt og hin skólasystir úr Upplýsingatækni-náminu. Allir þessir endurfundir voru mjög ánægjulegir og veðrið fór sífellt batnandi eftir því sem sunnar dró.
Adam var líka mjög góður og við skelltum okkur með honum í sund og að síðustu þegar til Keflavíkur kom, í nýja heita pottinn sem Jóhanna og Mo eru búin að setja í garðhýsi hjá sér.
Framhald ferðarinnar kemur væntanlega á morgun :o)
Mærudagar á Húsavík
Helgina 24.-26. júlí s.l. vorum við stödd á Húsavík á hinum árlegu Mærudögum sem sífellt verður veglegri hátíð. Veðurspáin var ekki góð, en það rættist ótrúlega vel úr veðrinu og sólin skein að miklu leyti alla dagana sem við dvöldum þar.
Didda systir og Rúnar hennar mættu líka norður og við eyddum miklum tíma með mömmu að vanda, en hún dvaldi samt eingöngu með okkur heima í Hlíð eða fór með okkur á rúntinn um bæinn. Það var því misjafnt hve mikið við gátum tekið þátt í þeim viðburðum sem boðið var uppá. Við systur vorum svo mikið með mömmu að við misstum af ýmsu, en gátum þó séð það helsta og hitt fullt af fólki sem gaman var að sjá.
Börnin okkar skemmtu sér líka ágætlega (það ég best veit) og barnabarnið sömuleiðis, en Rúnar afi sá mikið um að passa hann og skemmta honum.
Bænum var skipt í 3 svæði í þremur litum, appelsínugult, grænt og rauðbleikt. Við vorum í græna miðbæjarlitnum eins og í fyrra og erum reyndar líka í sama lit í okkar hverfi hér á Seyðó.
Meðf. eru nokkrar myndir frá Mærudögunum...
Monday, August 03, 2009
Viðhald ættaróðalsins
Móðir mín fæddist á Hafursstöðum í Öxarfirði og bjó þar síðan alla sína æsku á nýbýlinu Bjarmalandi sem Theodór afi minn byggði fljótlega eftir 1930.
Á undanförnum árum hafa nokkrir ættingjar mínir tekið höndum saman við að einangra og klæða húsið að innan, mála það að utan og nota það sem sumarhús fyrir stórfjölskylduna. Þangað er alltaf gaman að koma og ekki síst að veiða silung í vatninu og skoða yndislega staði eins og Forvöðin og Hallhöfðaskóg sem eru þar á eignarjörðinni. Við fórum að Dettifoss og Hafragilsfoss á leiðinni þangað og fengum besta veður þar, en daginn eftir þegar við renndum í Forvöðin fengum við á okkur vetrarveður, en létum það ekki á okkur fá og nutum þess að vera þar saman. Ég gat líka grillað handa okkur áður en úrkoman helltist yfir.
Í vetur blés Kári nokkrum þakplötum á brott af gömlu hlöðunni sem ekki er notuð lengur, en leiðinlegt er að sjá útihúsin hverfa á þennan hátt, svo við Rúnar tókum það að okkur að lagfæra skemmdirnar og reyna að loka öllu vel, svo húsin gætu staðið áfram sem lengst.
Við vorum svo heppin að börnin okkar komu öll með okkur að afloknu ættarmótinu og hjálpuðu okkur að klára þetta verk við frekar erfiðar veðuraðstæður, því það gekk á með hellirigningu, hagléli, vindi og sólarglennum þessa 2 daga sem verkið tók. Til allrar lukku tókst að koma þakplötunum á áður en fór að rigna, en hurðum og gluggum var lokað í slagveðri og gekk þetta allt slysalaust. Ekki tókst samt að klára að negla upp allt þakið, því þaksauminn þraut áður og þurfum við því að klára verkið fyrir veturinn, svo það dugi örugglega næstu árin.
Það vildi svo til að við áttum 32ja ára brúðkaupsafmæli síðari daginn og steingleymdum því auðvitað í annríki daganna, enda enginn merkisatburður :o)
En eins og sjá má á myndunum, þá tókst þetta bara nokkuð vel, þó ég segi sjálf frá, en það hefði ekki gengið svona vel, ef ekki hefðu verið til góðir stigar á Hafursstöðum, en ættingjar okkar þar lánuðu okkur þá fúslega og hafi þau þökk fyrir það !
Bóndastaðafjölskyldan hittist
Föðurfjölskylda Rúnars hefur haft það fyrir sið um árabil að hittast reglulega og ákveðið var s.l. vetur að næsta ættarmót skyldi haldið hér á Seyðisfirði helgina 17.-19. júlí. Það mættu um 40 manns hingað austur til okkar og við áttum góðar stundir saman. Veðrið hefði mátt vera betra, en það hefði líka getað verið mikið verra. Við gátum grillað og borðað utan dyra og Rúnar gat farið með alla sem óskuðu í smá siglingu um fjörðinn, en lítið veiddist af fiski þegar rennt var færi í sjó.
Aðalkvöldið komu allir inn að afloknum kvöldverði og sátu og spjölluðu frameftir kvöldi. Þá settist hluti ættingjanna niður í kjallara, þar sem húsgögn Lóu tengdamömmu eru til húsa og það köllum við Lóuhreiðrið. Sjá má hér sýnishorn frá þessari samkomu Bóndastaðafjölskyldunnar.
Hópurinn dreifðist víða um bæinn í gistingu, tvær fjölskyldur leigðu hús fyrir sig, hluti ættingjanna voru í Skógum og þær systur Ella og Harpa og þeirra fjölsk. nutu gestrisni móðurfólksins hér í bænum (Binnu og Kristrúnar) og ein fjölskylda var í fellihýsi. En þeir sem eftir voru gistu hjá okkur, m.a. tvær dömur sem notuðu húsbílinn okkar sem svefnstað og undu því bara vel. Segja má að sofið hafi verið í hverju horni, því einn gesturinn lét sér nægja að liggja á dýnu í eldhúsinu og kvartaði ekki:o)
Til stóð að hópurinn færi saman uppí Miðhúsasel í Fellum til að skoða nýuppgerðan gamla torfbæinn sem ættforeldrarnir Rúna, Eiríkur og Gunna voru fædd í, en þá stóð þar yfir ættarmót núverandi eigenda staðarins, svo við urðum að fresta þeirri heimsókn því miður !
Talað hefur verið um að halda næsta ættarmót í Danmörku, þar sem einn leggur ættarinnar býr, en vegna dýrtíðar og ástands íslenska þjóðarbúsins er óvíst að af því geti orðið, þó sjálfsagt sé að halda í vonina og kanna málið síðar :o)
Subscribe to:
Posts (Atom)