Wednesday, August 05, 2009
Fleiri myndir úr hringferðinni...
Á flestum ferðum okkar um Ísland höfum við annað hvort verið að fara á milli tveggja staða og sleppt því að skoða nokkuð á leiðinni eða við höfum farið sérstakar ferðir í þeim tilgangi að skoða þann landshluta eða stað sem við förum til hverju sinni. En í þetta sinn gerðum við hvort tveggja að skoða okkur svolítið um og heimsækja vini og vandamenn sem við sjaldan eða aldrei höfum heimsótt á núverandi stöðum. Þetta fyrirkomulag var mjög skemmtilegt, við stoppuðum stutt hjá hverjum og slepptum engum af þeim sem til stóð að líta til. Ég meira að segja fór með Hörpu mágkonu á mánaðarlegan hitting seyðfirskra kvenna á Salatbarinn, sem reyndist vera lokaður í þetta sinn en við fundum annað nálægt veitingahús til að sitja á, spjalla og fá okkur smá næringu. Það mættu 10 konur og 2 karlmenn að auki og það var glatt á hjalla og veðrið mjög gott.
Meðan við dvöldum fyrir sunnan brugðum við okkur eitt kvöldið í bíó að sjá myndina -Karlar sem hata konur-, hún var næstum jafn góð og bókin og Rúnar sem ekki var búinn að lesa hana, fann ekkert athugavert við myndina og fannst hún bara fín.
Veitingahúsið sem Mo og Jóhanna ætla að hefja rekstur á fyrir Ljósanótt, tók sinn tíma, því við vorum þar af og til að þrífa og laga til, enda mikið verk að koma öllu í starfhæft form á ný, eftir subbuganginn sem hafði viðgengist þar áður.
Síðast en ekki síst þá hittust margir ættingjar Rúnars í Mexícósúpu hjá Hörpu og sátu utandyra að snæðingi og nutu kvöldsólarinnar...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment