Saturday, August 08, 2009
07.08.09 = Flott dagsetning !
Í gær, þann 7. ágúst 2009 skrapp ég i góðu veðri upp á Hérað til að kanna hvort ekki væru komnir sveppir og bláber. Meiri líkur voru á að finna eitthvað slíkt Egilsstaða-megin við heiðina. Ég ákvað að kíkja í nýja lerkiskóginn á sléttlendinu við rætur heiðarinnar og fann þar heilan helling af þroskuðum bláberjum. Mikið af þeim voru í smærra lagi, en það gerði ekkert til. Ég tíndi fullan dall og snéri mér svo að sveppunum sem voru allt um kring, en misgóðir eins og gengur, því mikið af þeim var ónothæft vegna rigninga, aldurs og sniglaárása.
En ég náði samt að tína fulla körfuna áður en ég brenndi niður í Bónus og verslaði í helgarmatinn og rúmlega það.
Ég endaði svo daginn á því að hreinsa sveppina, steikja þá í smjöri og frysta í 15 litlum plastdöllum sem ætti að duga í pottrétti og sósur hjá okkur tveimur í vetur.
Berjadeser var toppurinn á góðum degi !
Ég ætla ekki að gleyma að minnast á keisara-aspirnar sem eru hér á nokkrum stöðum í bænum og allar hlaðnar hvítum frjó-reklum, sem frjóin fjúka af núna eins og hvít hundslappadrífa um allan bæ. Eins gott að ekki vaxi aspir upp af öllum þessum fræjum, því þá yrði ekki pláss fyrir aðra íbúa hér lengur :o)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment