Monday, August 03, 2009
Viðhald ættaróðalsins
Móðir mín fæddist á Hafursstöðum í Öxarfirði og bjó þar síðan alla sína æsku á nýbýlinu Bjarmalandi sem Theodór afi minn byggði fljótlega eftir 1930.
Á undanförnum árum hafa nokkrir ættingjar mínir tekið höndum saman við að einangra og klæða húsið að innan, mála það að utan og nota það sem sumarhús fyrir stórfjölskylduna. Þangað er alltaf gaman að koma og ekki síst að veiða silung í vatninu og skoða yndislega staði eins og Forvöðin og Hallhöfðaskóg sem eru þar á eignarjörðinni. Við fórum að Dettifoss og Hafragilsfoss á leiðinni þangað og fengum besta veður þar, en daginn eftir þegar við renndum í Forvöðin fengum við á okkur vetrarveður, en létum það ekki á okkur fá og nutum þess að vera þar saman. Ég gat líka grillað handa okkur áður en úrkoman helltist yfir.
Í vetur blés Kári nokkrum þakplötum á brott af gömlu hlöðunni sem ekki er notuð lengur, en leiðinlegt er að sjá útihúsin hverfa á þennan hátt, svo við Rúnar tókum það að okkur að lagfæra skemmdirnar og reyna að loka öllu vel, svo húsin gætu staðið áfram sem lengst.
Við vorum svo heppin að börnin okkar komu öll með okkur að afloknu ættarmótinu og hjálpuðu okkur að klára þetta verk við frekar erfiðar veðuraðstæður, því það gekk á með hellirigningu, hagléli, vindi og sólarglennum þessa 2 daga sem verkið tók. Til allrar lukku tókst að koma þakplötunum á áður en fór að rigna, en hurðum og gluggum var lokað í slagveðri og gekk þetta allt slysalaust. Ekki tókst samt að klára að negla upp allt þakið, því þaksauminn þraut áður og þurfum við því að klára verkið fyrir veturinn, svo það dugi örugglega næstu árin.
Það vildi svo til að við áttum 32ja ára brúðkaupsafmæli síðari daginn og steingleymdum því auðvitað í annríki daganna, enda enginn merkisatburður :o)
En eins og sjá má á myndunum, þá tókst þetta bara nokkuð vel, þó ég segi sjálf frá, en það hefði ekki gengið svona vel, ef ekki hefðu verið til góðir stigar á Hafursstöðum, en ættingjar okkar þar lánuðu okkur þá fúslega og hafi þau þökk fyrir það !
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment