Saturday, August 08, 2009

Siglt til Húsavíkur-eystri og í Lotnu !




Í tilefni af því að veðurguðirnir miskunnuðu sig yfir okkur annan daginn í röð með sól og blíðu, þá var ákveðið að skreppa í siglingu og skoða litlu víkina LOTNU sem er ótrúlega gott skjól fyrir báta á ólíklegasta stað, fremst (austast) á Álftavíkurbjargi. Þangað hafði ég aldrei komið og fannst mikið til um hve vel hún er falin, því ég sá hana ekki fyrr en við vorum komin fast að rennunni við klettana og sá ekki betur en hún væri of þröng fyrir bátinn, en við sluppum vel í gegn og inni fyrir var logn á víkinni og fullt af öndum og skarfur, sem flúðu þetta ónæði sem við ollum þeim. Rúnar sigldi upp að klettavegg sem ég gat stokkið uppá til að taka myndir og gekk í hálfhring um svæðið og fann þar stórar og miklar húsatóftir. Þarna var víst búið nokkuð lengi og ég er búin að frétta hverjir síðustu ábúendurnir voru, en langar að kanna það nánar, því svona eyðistaðir kalla heilmikið á forvitni mína um mannlíf fyrri tíma á slíkum stöðum.
Rúnar langaði að skreppa yfir í Húsavík eystri og siglingin þangað gekk vel. Ég var með stóru aðdráttarlinsuna hans Halla Más með mér og gat því tekið nærmyndir af húsunum þar, þó langt væri í land. En ég hef ekki komið til Húsavíkur í tæp 30 ár, en þá var kassi fullur af mannabeinum staðsettur í kirkjunni og við sáum bein standa út úr sjávarbakkanum, þar sem kirkjugarðurinn var, en hann er smám saman að hrynja í sjóinn.
Á heimleiðinni var kominn mikill strekkingur, svo að báturinn steypti stömpum og sjór gusaðist yfir hann, svo ég neyddist til að flýja inn í stýrishúsið og reyndi við illan leik að skorða mig þar, en fékk slæman höfuðverk með tilheyrandi velgju, svo að greinilega er ég ekki sjóhraust, þó ekkert meira yrði úr þessu, því ég náði að jafna mig eftir að við komumst inn fyrir Brimnesið, þar var rólegra í sjóinn.
Örstutt frá Selstöðum var fiskikar í fjörunni sem Rúnar hafði hug á að ná í tog og fara með heim. Við vorum svo heppin að Unnar Sveinlaugs var þarna á rúntinum og hljóp niður í fjöru og tók við spotta sem við hentum í land og festi í karið sem síðan sigldi með okkur heim á bryggjuna hjá Dvergasteini, enda merkt fyrirtækinu.
Nú er bjartur og góður dagur að kveldi kominn og við þakklát fyrir hann og vonum að fleiri sólardagar fylgi í kjölfarið...

No comments: