Saturday, October 03, 2009
Haustroði 03.10.09
Í dag var haldin árleg hausthátið Seyðfirðinga sem nefnd er HAUSTROÐI. Af því tilefni var fólki boðið að taka þátt í sultukeppni og ljósmyndasamkeppni. Þar sem ég hef haft fyrir sið áratugum saman að malla sultur úr berjum og fleiru á hverju hausti, þá mátti ég til með að sýna lit og taka þátt. Einnig átti ég nóg af ljósmyndum og dreif því nokkrar myndir í keppnina. Ekki fékk ég verðlaun fyrir mynd í þetta sinn (eins og í fyrra) en í staðin fékk ég aðalverðlaunin fyrir SÓLBERJA- SULTUNA sem ég sauð nú í fyrsta sinn og var að vonum bæði hissa og glöð þegar úrslitin voru kunngjörð nú síðdegis. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, því auk þess að fá rós með mér heim, þá fékk ég líka fulla körfu af austfirsku góðgæti, þ.e.a.s. piparkökur og fíflahunang frá Skriðuklaustri, lífrænt ræktað korn frá Vallanesi (Móður jörð), hangikjöt frá Möðrudal og síðast en ekki síst boðskort fyrir tvo á jólahlaðborðið sem verður hér á Öldunni þegar líða tekur að hátíðum. Margar góðar sultur voru í keppninni og var ég sérstaklega hrifin af einni sem búin er til úr rabbarbara, eplum, gulrótum og sykri, hún hefði fengið fyrstu verðlaun frá mér :o)
Fjöldi fólks var líka með flóamarkað (ekki ósvipað og Kolaportið) á þremur stöðum í bænum og ég rúllaði á milli þeirra og keypti eitthvað á hverjum stað, m.a. nýbökuð kryddbrauð og bananabrauð sem gott er að eiga í frystinum þegar minn maður kemur heim. Ég keypti líka nokkrar kiljur, matreiðslubók og ný föt svo eitthvað sé nefnt.
Þetta varð því hinn ánægjulegasti dagur, þó ekki hafi hann byrjað vel, því fyrsta hríð haustsins skall hér á í morgun og jörð er orðin alhvít. Það er því vetrarlegt um að litast. En þá er gott að kúra inni undir teppi og dunda sér við lestur eða handavinnu eða annað skemmtilegt. Ég er reyndar byrjuð á peysu handa Adam ömmustrák og vona að mér takist að klára hana a.m.k. tímanlega fyrir jól :o)
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Ég skrifaði komment hér í dag en það hefur glatast. Langaði bara að óska þér til hamingju með verðlaunin alltaf gaman af svona. Þetta hefur verið viðburðarríkur dagur. Kær kveðja Ásdís
Post a Comment